Umræða um raforkustöð ISAVIA

0
Umræða um raforkustöð ISAVIA

Að gefnu tilefni langar mig að setja fram nokkur sjónarmið er varðar umræðu um raforkustöð á Heimakletti. Fyrir liggur að nú á að gera þetta mál að einhverju pólitísku máli í bænum. Það segir allt sem segja þegar fulltrúar minnihluta bóka: ,,málið hafði ekki verið rætt til hlítar af hálfu ISAVIA og meirihluta bæjarstjórnar”.

Ráðið hefur lagt ríka áherslu á vandaðan frágang og að röskun á svæðinu verði með minnsta móti. Jafnframt hefur ráðið einungis samþykkt tímabundið leyfi til 12 mánaða sem hefur engin sjónræn áhrif frá bænum. Sama gerði ráðið í heild sinni á fundi nr. 293 þann 31. október 2018 og samþykkt af allri bæjarstjórn á fundi nr. 1539 þann 8. nóvember 2018.

Í mínum huga er nýr strengur eða viðgerð á eldri streng fyrsta val og hefur alltaf verið. Í júlí sl. kynnti ég mér þetta mál sérstaklega þar sem aðilar hér í bæ fullyrtu að Vestmannaeyjabær væri að vinna gegn fluginu með því að heimila ekki raforkustöð á Heimakletti. Því miður var niðurstaða mín sú að framkoma og samskipti fulltrúa ISAVIA hafa ekki verið góð í þessu máli. Ég fagna því opnu bréfi Sigrúnar Jakobsdóttur sem birtist á Eyjamiðlum í gær. Ég hef meira orðið var við skort á samskiptum og afarkosti ISAVIA í stað þess að ,,gera allt þetta í góðri sátt og samvinnu við íbúa í Vestmannaeyjum” eins og fram kemur í opnu bréfi. Ég er ósammála því sem kemur fram í opnu bréfi að nýr strengur hefði myndað mörg sár og skemmt ásýnd Heimakletts. Ég velti í framhaldi fyrir mér sömu sjónarmiðum þegar ISAVIA lætur grafa tvær holur í leyfisleysi á Heimakletti?

Jafnframt er ágætt að lesa í opnu bréfi að málið á sögu allt til ársins 2017 þegar maður þarf að sitja undir því að standa í veg fyrir flugöryggi, af hverju í ósköpunum er þetta ekki löngu frágengið? Fyrrverandi formaður umhverfis- og skipulagsráðs hefði átt með þáverandi meirihluta að klára þetta með ISAVIA fljótt og vel, um leið og málið kom upp. Ég gef því lítið fyrir pólitíska leiksýningu minnihlutans. Í mínum huga er þetta fyrst og fremst peningamál hjá ISAVIA enda kemur fram í opnu bréfi ,,Eins og nefnt hefur verið er kostnaður við lagningu jarðstrengs umtalsvert hærri en vegna uppsetningar á sólarsellu rafstöð. Þar sem Isavia þarf að gæta fyllstu hagkvæmni í sínum framkvæmdum, telur Isavia að þeim mismun sé betur varið í viðhald á flugbrautum á Vestmannaeyjaflugvelli.”

Ég ítreka aftur það sem sagði á síðasta bæjarstjórnarfundi að ef Isavia ætlar að halda sig við að reisa þessa stöð þá verði hún sérsniðin og hönnuð að umhverfinu en að sama skapi ætla ég að hvetja þá líka að skoða hvort þeir vilji ekki leggja nýjan streng.

Elís Jónsson

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja