Í gær, sunnudag fóru á kreik sögusagnir og myndbirtingar þess efnis að mikil og alvarleg skemmdarverk hefðu verið unnin í kirkjugarðinum okkar. Við þá sem birtu þetta og þá sem höfðu hvað mestar áhyggjur af þessu öllu saman vil ég segja þá gleðifrétt að skemmdarvargurinn er fundinn. Hann heitir Kári og blés all hressilega úr suð-austri frá því á aðfaranótt fimmtudags og langt fram á laugardag. Ég varð sjálfur vitni að skemmdarfýsn hans á föstudaginn var, þegar ég var við störf í garðinum. Það var varla stætt fyrir mig hvað þá fyrir þá tvo aðstoðarmenn sem með mér voru. Annar þeirra fauk tvisvar og þurfti í annað skiptið að hlaupa á eftir gleraugunum sínum. Við horfðum á krossa og annað lauslegt fjúka, sveigjast og beygjast og gátum lítið að gert enda var loftþrýstingurinn gríðarlegur.

Aðkoman eftir helgina
Garðurinn leit ekki vel út eftir Kára. Aðallega voru það krossarnir sem fengu að finna fyrir því sem sumstaðar höfðu losnað úr festu sinni og lágu á hlið eða höfðu einfaldlega brotnað. Einnig mátti sjá einstaka smáhlut sem hafði brotnað úr festu sinni af steinum og leiðum. Það verður þó að segjast að þessi aðkoma er nokkuð hefðbundinn eftir álíka veður sem því miður eru hreint ekki óalgeng á þessum slóðum og ekkert af þeim skemmdum sem voru eftir óveðrið ólíkar því sem áður hefur sést.

Sannarlega hafa skemmdir verið unnar af mannavöldum áður
Því er þó ekki að neita að mannlegir skemmdarvargar hafi eyðilagt og skemmt í kirkjugarðinum okkar og það nokkuð nýlega. Þá voru aðstæður allt annars eðlis því augljóslega mátti rekja leið viðkomandi í gegnum garðinn. Því er kannski ekki óeðlilegt að einhverjir hlaupi upp til handa og fóta og setji myndir á facebook af skemmdum helgarinnar. Auðvitað situr það í okkur þegar einhver gengur hart gegn síðasta dvalarstað ástvina okkar, augljóslega í fullkomnu skilningsleysi gagnvart mikilvægi þessara minnismerkja fyrir okkur ástvini.

Eins símtals fjarlægð
Það eru þó betri leiðir til þess að koma á framfæri áhyggjum sínum í þessu tilfelli en samskiptamiðlar. Sjálfkrafa verða ákveðnir hópar, börn, unglingar, ógæfufólk o.s.frv. brennimerkt fyrir verknaðinum og það býr alltaf til óþarfa togstreitu og áhyggjur. Minni mál hafa valdið meiri usla. Í svona litlu samfélagi er frekar stutt á milli okkar og á tækniöld erum við bara einu símtali, sms, facebook skilaboðum í burtu frá náunganum. Notum þau tæki áður en við vörpum áhyggjum okkar út á internetið og búum til óþarfa áhyggjur fyrir aðra.

Fyrirsögnin gripandi
Ágæti lesandi. Því meira grípandi sem fyrirsögnin er því líklegri erum við til að lesa. Neikvæðari stöðuuppfærslur ná líka meiri athygli. Ég þori að veðja að ef fyrirsögnin hefði t.d. verið „Skemmdirnar ekki af mannavöldum“ eða „Allt í góðu í kirkjugarðinum“ hefðu þessi skilaboð ekki náð til þín því þú hefðir ekki lesið fréttina.