Úttekt klárast ekki fyrir vorið
Vegagerðin telur óraunhæft að óháðri úttekt á Landeyjahöfn verði skilað í mars á næsta ári. Eðlilegra væri að miða við haustmánuði 2020. Ljóst sé að kostnaður við úttekt sem koma ætti að gagni myndi kosta töluverðar fjárhæðir eða 50 til 100 milljónir.
Þetta kemur fram í umsögn Vegagerðarinnar við þingsályktunartillögu sem allir þingmenn Suðurlands standa að. Í tillögunni er lagt til að úttekt óháðra aðila á höfninni verði flýtt enda ástandið hvorki boðlegt íbúum Vestmannaeyja né öðrum sem treysta þurfi á greiðar samgöngur milli lands og eyja.

Reynslulitlir ráðgjafar á Íslandi
Vegagerðin telur mikilvægt að þeir ráðgjafar sem fengnir verði til verksins hafi mikla þekkingu í strandverkfræði og sandflutningsrannsóknum. Ráðgjafar hér á landi hafi mjög takmarkaða reynslu á því sviði en hún sé mikil bæði í Hollandi og í Bretlandi. „Hollendingar hafa verið að kljást við sandflutning í höfnum í mjög langan tíma og þar eru einmitt stærstu dýpkunarfyrirtæki heimsins staðsett,“ segir í umsögninni.

Þarf að útbúa líkön
Vegagerðin segir að viðkomandi þyrfti að geta sökkt sér í efnið og koma sér inn í öll þau gögn sem til séu um höfnina. Hann þyrfti að útbúa líkön svo hann gæti skoðað málið á raunsæjan hátt. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur jafnframt fram að fljótlega eftir að höfnin var opnuð hafi komið í ljós mun meiri vandamál vegna sandburðar en reiknað hafði verið með. Fyrir liggi gögn frá prófessorum frá Lundi sem voru fengnir til að yfirfara gögn sem danskir ráðgjafar Siglingastofnunar Íslands höfðu reiknað út.

Bæjarráð fagnaði
Bæjarráð Vestmannaeyja fagnar tillögunni og segir mikilvægt að þeir sem taki út höfnina ráðfæri sig við þá sem hafi hvað mestu reynsluna af því að sigla inn höfnina. Framkvæmdastjóri Herjólfs ohf segir í umsögn sinni að úttektin eigi ekki eingöngu að einskorðast við dýpi Landeyjahafnar heldur verði einnig að líta til þeirrar reynslu sem þegar sé komin af nýjum Herjólfi.

Taka verði til athugunar hvaða „aðrir þættir, svo sem samspil vinds, öldu og strauma, kunni að hafa áhrif á nýtingu hafnarinnar og hugsanlegar lagfæringar, og eða breytingar á hafnarmannvirkjum sem þarf að fara í svo siglingar þangað teljist öruggar.“

 

Rúv.is greindi frá