Það var vel mætt á sýningu Sifjar Sigtryggsdóttur og Adda í London í Einarsstofu á laugardaginn sem var sú fimmta í sýningaröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. Og áfram er haldið og á morgun sýna Bjarni Sigurðsson, sem stýrir eldhúsinu á Sjúkrahúsinu og Friðrik Harðarson með eigin myndir og myndir sem faðir hans, Hörður Sigurgeirsson, ljósmyndari skildi eftir sig þegar hann lést.
Bjarni er ekki bara kokkur, hann er líka ljósmyndari og verður gaman að sjá hvaða augum hann sem aðkomumaður lítur náttúru Vestmannaeyja.
Friðrik rær á sömu mið en hefur verið lengur að og tekur við af föður sínum sem myndaði mikið í Eyjum um og eftir miðja síðustu öld. Samtals ná myndir þeirra feðga yfir 70 ára tímabil í sögu Vestmannaeyja.
Sýningin hefst klukkan 13:00 á morgun og er í Einarsstofu.

Mynd sem Hörður tók af fyrsta fótboltaleiknum á Hásteinsvelli