Landfestar slitnuðu þar sem flutningaskipið Helgafell lá bundið við bryggju í Vestmannaeyjum í dag. Erfiðlega gekk í morgun að koma skipinu upp að bryggju en hvöss norðan átt hefur gengið yfir Vestmannaeyjar frá því í gær. „Þeir þurftu að bíða aðeins í morgun því það voru snarpar kviður við bryggju, annars hefur gengið vel að lesta og engar verulegar tafir, þeir náðu ekki að snúa því í morgun eins og venjulega er gert. Skipið var bundið meira en venja er út af veðri og það er búið að koma fyrir auka spottum fyrir þann sem fór,“ sagði Leifur Jóhannesson hjá Samskip í Vestmannaeyjum.