„Þetta mjakast allt saman,“ sagði Grétar Þór Eyþórsson forstöðumaður í íþróttamiðstöðinni þegar við heyrðum í honum og spurðum varðandi framkvæmdirnar í íþróttamiðstöðinni. „Siggi er á fullu að flísaleggja gufuna og opnar hún vonandi fljótlega í næstu viku. Búið er að rífa þakið af öllum karlaklefanum og verða menn búnir að loka honum að fullu í lok vikunnar. Þá verður farið beint í undirbúningsvinnu, flotun og slípun og beint í flísalögn í kjölfarið.

Hvenær verður þessu svo lokið og hægt að opna klefana að nýju?

„Við erum öll sammála um að gera þetta vel en ekki einbeita okkur að dagsetningu. Það þarf að huga að ýmsu í svona framkvæmdum loftræsting, rafmagn, vatnsleiðslur og fleira. En það er ljóst að klefarnir verða til fyrirmyndar þegar allt verður klárt,“ sagði Grétar að lokum.