Friðrik Björgvinsson, framkvæmdastjóri Eyjablikks hefur víða komið við í atvinnulífinu, verið vélstjóri til sjós og var verkefnastjóri hjá Vestmannaeyjabæ áður en hann byrjaði sem framkvæmdastjóri hjá Eyjablikki. Hann hefur verið með myndavél á lofti frá árinu 1981 og ætlar hann að gefa gestum í Einarsstofu á laugardaginn kost á að kíkja á safnið sem nær yfir tæp 40 ár. Myndir bæði teknar á sjó og á landi þar sem bregður fyrir mörgu þekktu andlitinu.

„Ég er þakklátur fyrir þetta tækifæri því það ýtir við manni að taka til í safninu,“ segir Friðrik. „Ég verð með valið efni en legg áherslu á myndir sem ég hef tekið af fólki, köllum sem ég var með til sjós og hafa orðið á vegi manns í landi. Það var margt í safninu sem kom mér á óvart og verður gaman að sýna úrval úr því á laugardaginn. Ég fer aftur til ársins 1981 þegar ég byrjaði að taka myndir og margar myndirnar eru óborganlegar. Ég byrjaði auðvitað með filmuvélar en breytti yfir árið 2000 þegar stafræna tæknin tók yfir. Innan um geta verið myndir sem aðrir hafa tekið á vélina mína en ég á þær á langflestar.“

Svakalegur túr á Huginn

Friðrik fór ungur til sjós, byrjaði á Lagarfossi 1975 og fór svo á Kópavík 1976. Var á bátum hjá Hraðinu í nokkur ár og svo eitt ár á Huginn, 1991 til 1992. „Þar voru skemmtilegir karlar og á ég nokkrar myndir þaðan. Meðal annars eina af Tomma stýrimanni sem mér finnst mjög góð. Það reyndi á skip og áhöfn þegar við fengum tvisvar brot á okkur á heimleið með loðnu í febrúar 1992. Það fóru gluggar í brúnni sem fylltist af sjó. Ég segi kannski einhverjar sögur frá þessum túr þar sem Ingi, skipstjórinn sleppti aldrei höndunum af stýrinu og inngjöfinni þó mikið gengi á og hann á kafi í sjó.“

Eftir þetta fór Friðrik yfir á Sigurð VE þar sem hann var í 15 ár sem vélstjóri. Þar var hann með Bóba, einum mesta aflaskipstjóra Íslandssögunnar. „Ég tók myndir um borð í Sigurði en ég var á fleiri bátum, Júlíu, Frá og Halkion þar sem voru líka sómakallar sem gaman verður að sýna.“

Þegar Gerðisbrautin kom í ljós

Hann er einnig með myndir frá því hann vann hjá Vestmannaeyjabæ, af ýmsum framkvæmdum og fólki sem kom að þeim. „Ég á myndir af því þegar við fundum Gerðisbraut 10 sem Eldheimar voru byggðir utan um. Það átti að vera fjórum metrum innar en allt í einu kom í ljós loftnet og þar var húsið undir.“

Í dag er Friðrik með Canon EOS 6 B Mark 2. „Ég hef átt hana í eitt og hálft ár og líkar vel við gripinn. Þetta er mikið stökk frá fyrstu myndavélinni sem ég átti sem var með fastri 50 mm linsu. Hún leyndi samt ár sér og ég er nokkuð ánægður eftir að hafa farið yfir safnið mitt. Ég veit að margt á eftir að koma á óvart og vonast til að sjá sem flesta í Einarsstofu kl. 13.00 á laugardaginn. Ég er með um 100 myndir sem ég held að sé ágætur skammtur en það var erfitt að velja,“ sagði Friðrik að endingu.