Í hádeginu í dag skrifuðu þær Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningamálaráðherra og Hafrún Kristjánsdóttir frá Háskólanum í Reykjavík undir samkomulag þess efnis að frá og með næsta hausti verði í boði fjarnám í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík. Ráðinn verður sérstakur umsjónarmaður námsins sem búsettur verður í Vestmannaeyjum.

 

Sterk íþróttahefð í Vestmannaeyjum

 

Í Vestmannaeyjum er sterk og mikil íþróttahefð þar sem rekið er mjög öflugt íþróttastarf í mörgum greinum og eiga Eyjamenn fjölmörg sigursæl keppnislið sem hafa landað bikar- og Íslandsmeistaratitlum. Auk þess eru stórmót í íþróttum haldin á ári hverju sem draga að þúsundir gesta og marka þau stóran sess í samfélaginu. Á undanförnum árum hafa einnig verið settar á laggirnar íþróttaakademíur í framhaldsskólanum og var Vestmannaeyjabær fyrsta sveitarfélagið til að setja á stofn íþróttaakademíu á grunnskólastigi. Nýtt háskólanám í íþróttafræðum gefur íþróttasamfélaginu sem Vestmannaeyjar eru möguleika á að vaxa enn frekar.

 

Tækifærum til menntunar á háskólastigi fer fjölgandi

 

Ánægjulegt er að sjá vaxandi möguleika í fjarnámi á háskólastigi en aukin tækifæri í fjartækni hafa gert slíkt mögulegt í auknum mæli og þar með skapað sóknartækifæri í fjölbreyttara námsvali og aukið möguleika ungmenna á að mennta sig í heimabyggð. Slíkt er mikilvægt til að tryggja m.a. fjölbreytta íbúasamsetningu og eflingu samfélagsins.

 

 

Lilja Alfreðsdóttir