„Ég fór í rekstrarfræði fyrir sunnan og velti fyrir mér sjávarútvegsfræðum í framhaldinu en tók svo stefnu á Stýrimannaskólann. Sjómennskuna þekkti ég, fannst hún áhugaverð og spennandi og er enn þeirrar skoðunar.

Sjálfar fiskveiðarnar eru sérlega spennandi, ekki síst með miklum tæknibreytingum í veiðarfærum og búnaði tengdum uppsjávarveiðum. Til sögunnar komu miklar græjur í brúna til að leita að fiski og finna fisk. Svo tölum við kollegarnir mikið saman og berum saman bækur um stöðu og horfur á miðunum. Þess vegna segi ég að farsíminn er líklega áhrifamesta og besta fiskileitartækið!“

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE, er Eyjamaður í húð og hár og hefur búið og starfað í Vestmannaeyjum mestalla sína tíð. Undantekningin var nokkrir mánuðir í Reykjavík eftir flótta að heiman gosnóttina. Þá  var kappinn fimm ára gamall og ekki sérlega ánægður með vistaskiptin. Hann saknaði félaga sinna heima í Eyjum. Honum hundleiddist hreinlega í höfuðborginni, segir móðir hans.

Skipstjóri og synir þrír saman á Ísleifi

„Það breytti tilverunni mjög til batnaðar að fjölskyldan flutti tímabundið til Hirthals á Suður-Jótlandi í Danmörku gossumarið 1973 og aftur sumarið 1974. Pabbi var skipstjóri á Ísleifi VE á síldveiðum í Norðursjó og við fylgdum honum.

Danmerkurdvölin var mikil upplyfting fyrir okkur öll og svo settumst við á nýjan leik að í Vestmannaeyjum. Foreldrar mínir höfðu byggt þar hús rétt fyrir gos og aldrei kom annað til greina en að snúa heim og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Ég kláraði síðar framhaldsskólann í Eyjum og stundaði bæði handbolta og fótbolta. Svo kom eiginkonan til sögunnar, Sigurhanna Friðþórsdóttir, og við fórum til náms í Reykjavík, hún í Kennaraháskólann en ég í rekstrarfræði við Tækniskólann. Vissulega velti ég ýmsu fyrir mér á vinnumarkaði að námi loknu en sjórinn togaði í mig og þar með Sjómannaskólinn. Þaðan útskrifaðist ég 1995.  Fluttum við þá til Vestmannaeyja ásamt ársgamalli dóttur okkur og nú eru börnin orðin fjögur.

Sjómennskan var skrifuð í skýin. Við erum þrír bræður sem allir höfðum verið til sjós með pabba skipstjóra á Ísleifi, meira að segja allir í einu á tímabili. Mömmu fannst það bara fínt að sjá okkur feðga leggja saman úr höfn til veiða. Hún vildi miklu frekar hafa syni sína með karlinum á sjó en að þeir bardúsuðu eitthvað annars staðar!“

Gulldeplan gerði hann að skipstjóra!

„Ég var aðallega á gamla Ísleifi eftir Sjómannaskólann, í mörg ár sem háseti og síðan 2. stýrimaður. Útgerð Ísleifs sameinaðist Vinnslustöðinni í nóvember 2003 og áhöfnin fylgdi skipinu til nýs eiganda.

Ísleifi var lagt um hríð, Gullbergið keypt og nefnt Kap. Ég fór á Kap sem 2. og 1. stýrimaður. Skipstjóri varð ég í fyrsta sinn árið 2009, þökk sé blessaðri gulldeplunni sem Huginn VE hóf að veiða í tilraunaskyni.

Gulldepla er miðsjávarfiskur og tilraunaveiðar Hugins og fleiri skipa gengu þannig að fleiri sýndu því áhuga að prófa líka, þar á meðal ég sjálfur.  Ég spurði ráðamenn Vinnslustöðvarinnar hvort ekki kæmi til greina að senda Ísleif á gulldeplu og niðurstaðan varð sú að ég kastaði frá mér síldarvertíð á Kap til að prófa gulldepluveiðar sem skipstjóri á Ísleifi. Með mér fékk ég að mestu óvana áhöfn. Við fiskuðum lítið og úthaldið var brösugt af ýmsum ástæðum í nóvember, desember og fram í janúar.

Mannskapurinn varð eðlilega pirraður í mótlætinu en við höfðum alltaf í huga að ef gefinn yrði út stór loðnukvóti myndi Vinnslustöðinni ekki duga að gera út Kap og Sighvat Bjarnason til veiðanna. Þörf yrði fyrir þriðja skipið líka, það er að segja Ísleif og áhöfnina þar með. Það gekk eftir þegar vertíðin var liðlega hálfnuð og loðnan komin í Faxaflóa.

Við lentum að vísu í bilunum og veseni í byrjun en svo fór okkur að ganga betur. Þarna kastaði ég nót í fyrsta sinn en hafði áður einungis horft yfir öxl annarra skipstjóra kasta á torfur. Þetta var dálítið stressandi en slapp alveg til.“

Velgengni á veiðum í ár

Mikið vatn hefur til sjávar runnið (alla vega á fastalandinu!) frá því Jón Atli þreytti frumraun sína með nót á gamla Ísleifi. Hann er núna skipstjóri á Kap, skipi sem Vinnslustöðin keypti af HB Granda í maí 2015 og hét þá Faxi RE. Fyrirtækið keypti líka Ingunni AK af HB Granda, nefndi skipið Ísleif VE og málaði grænt.

Þegar þetta er skrifað, rétt fyrir árshátíðarhelgi VSV, stóðu út af tveir túrar á Kap til veiða á „heimasíld“ (Íslandssíld). Að baki eru veiðar á kolmunna sem hófust í apríl og síðan fylgdi makríll og loks norsk-íslensk síld. Allt gekk þetta ljómandi vel en loðnubresturinn í upphafi árs er geymdur en ekki gleymdur. Eðlilega.

„Okkur hefur gengið gríðarlega vel þegar við loksins gátum farið til veiða. Að sjálfsögðu megum við ekki til annars hugsa en að veiða loðnu í vetur. Loðnubresturinn í ár var mikið áfall, ekki bara fyrir okkur sjómennina og útgerðina, heldur fyrir Vestmannaeyjar og íslenskt samfélag yfirleitt. Margir höfðu ábyggilega gleymt því eða jafnvel ekki áttað sig á því að loðnan skipti svo miklu máli fyrir þjóðarbúið að fjárlög ríkisins færu að nokkru úr skorðum þegar veiðarnar brugðust gjörsamlega.“

„Jaxlasjómennska“ ekki lengur liðin

Jón Atli er ánægður með Kap VE og hælir líka áhöfninni sinni á hvert reipi.

„Skipið er komið nokkuð til ára sinna en er öflugt og lipurt. Í Sighvati Bjarnasyni og gömlu Kap eru til að mynda um 3.000 hestafla vélar en í Kap hins vegar 5.800 hestafla vél. Það gjörbreytir vinnuaðstæðum að hafa slíka orku á togveiðum. Við færðumst upp um deild með öllum þessum viðbótarhestöflum.

Um borð er nánast sami mannskapur ár eftir ár. Menn láta ekki frá sér fast pláss og nýliðun er því lítil.

Viðhorf til öryggismála eru líklega mesta breytingin frá því ég byrjaði til sjós. Slysavarnaskóli sjómanna hafði þar allt að segja. Við viljum að þeir sem leggja úr höfn skili sér heim aftur, heilir heilsu. Slysum hefur blessunarlega fækkað gríðarlega og litið er á notkun hjálma, björgunarvesta, öryggislína og hlífðarfatnaðar sem sjálfsagt mál. Öryggi er liður í fagmennsku. Nú er litið niður á jaxlasjómannstýpuna sem veður í allt og hirðir ekki um einfaldar öryggisreglur, hvað þá meira. Slík hegðun er bara ekki liðin lengur.

Liður í öryggismálum er að liggja yfir veðurspám og bera saman veðurupplýsingar og spár sem fyrir liggja. Sú tíð er liðin að við séum háðir Veðurstofu Íslands og RÚV að þessu leyti. Nú má nálgast spár úr fleiri áttum á Vefnum og bera saman.

Ekkert mál er að sigla í vitlausu veðri en við stundum ekki veiðar við slíkar aðstæður. Vissulega finnum við fyrir ákveðnum þrýstingi að fiska fljótt og vel en öryggið er alltaf framar öðru. Um það ríkir einhugur okkar og útgerðarinnar.“