Safnahelgi – Dagskrá í Einarsstofu frestast til 1. des, Lúðrasveitartónleikar kl. 16:00

Í dag, laugardag voru á dagskrá nokkrir viðburðir í tilefni Safnahelgar sem nú stendur sem hæst. En þó kóngur vilji sigla er það byr sem ræður. Sú er einmitt reyndin með þau sem ætlaðu að vera í Safnahúsi í dag. Vegna samgangna verður að fresta komu þeirra til sunnudagsins 1. desember.
Fyrsti viðburður á dagskránni í dag, laugardaginn 9. nóvember kl: 12 átti að vera súpa í boði Söguseturs 1627 í Einarsstofu, Safnahúsi. Á eftir átti Bjarni Harðarson að skrifa undir samning við Sögusetur 1627 um útgáfu á Reisubók sr. Ólafs Egilssonar.
Næst ætlaði Bjarni að kynna nýjar bækur hjá Sæmundarútgáfunni og Harpa Rún Kristjánsdóttir og Guðjón Ragnar Jónasson að lesa úr nýjum bókum sínum.
Síðast en ekki síst ætlaði Guðrún Bergmann að mæta í Einarsstofu og fjalla um 5 einfaldar leiðir til að bæta heilsuna og kynna nýjustu bók sína, BETRA LÍF fyrir konur á besta aldri.
Í dag siglir Herjólfur ekki í Landeyjahöfn og ekkert flug er á laugardögum. Þetta ágæta fólk er með það stífa áætlun, að það komst ekki í gær en það er ekki á þeim buxunum að gefast upp. Hefur það af ljúfmennsku fallist á að koma sunnudaginn 1. desember þannig að nú er bara að hlakka til þó í lengri tíma sé.

Lúðrasveit Vestmannaeyja lætur veðrið ekki trufla sig og heldur sína tónleika klukkan 16:00 í Hvítasunnukirkjunni, stóra salnum. Hátíðartónleikar í tilefni af 80 ára afmælis sveitarinnar.

Mest lesið