Frábærir tónleikar á áttatíu ára afmæli Lúðrasveitarinnar

Lúðrasveit Vestmannaeyja hélt sína árlegu Styrktarfélagatónleika í stóra sal Hvítasunnukirkjunnar á laugardaginn. Tónleikarnir voru extra veglegir í ár þar sem sveitin fagnar 80 ára afmæli.

Lúðrasveitir hafa verið í Eyjum frá því stuttu eftir aldamótin 1900 en sú fyrsta var stofnuð árið 1904, en fyrstu störfuðu stutt og þrjár fyrstu lögðu upp laupana þar til sú fjórða var stofnuð árið 1939 sem starfar enn. Oddgeir Kristjánsson var fyrsti stjórnandi sveitarinnar og er sá aðili sem lengst hefur verið stjórnandi hennar eða þar til hann lést árið 1966.

Tónleikarnir voru bráðskemmtilegir og efnisskráin fjölbreytt. Skapti Örn Ólafsson var kynnir kvöldsins og rakti söguna og sýndi m.a. þróunina á einkennisklæðnaði sveitarinnar í gegnum árin.

Í hléi tónleikana var gestum boðið upp á kaffi og afmælisköku sem fór vel ofan í mannskapin. Eyjapeyinn Páll Pálsson, félagi í Lúðrasveit verkalýðsins, bað um orðið eftir hlé og færði Lúðrasveit Vestmannaeyja frumútsetningar á syrpum Oddgeirs Kristjánssonar, sem Ellert Karlsson útsetti á sínum tíma. Ellert var stjórnandi sveitarinnar frá ársbyrjun 1971 fram að gosi, 23. janúar 1973. Síðar varð Ellert stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins.

Sóley Þrastardóttir lagði á sig mikið ferðalag til að geta leikið með Lúðrasveitinni.

Það eru 15 – 20 manns sem er grunnurinn að Lúðrasveit Vestmannaeyja, þau hittast einu sinni í viku og æfa sig. Á hljómleikum eins og voru um síðustu helgi voru 42 sem komu að hljómleikunum, félagar úr öðrum lúðrasveitum koma og spila með. Núna voru félagar úr sveitum frá Lúðrasveit verkalýðsins, Lúðrasveit Selfoss, Lúðrasveit Þorlákshafnar, Lúðrasveit Reykjavíkur og Lúrðasveit Fljótdalshéraðs. Sóley Þrastardóttir keyrði alla leið frá Egilsstöðum til Þorlákshafnar á föstudaginn og sigldi með Herjólfi lll til Eyja og komst á æfingu kl. eitt aðfaranótt laugardags. Það var á miðvikudaginn í síðustu viku sem Jarl fékk sms frá einum sem spurði hvort hann mætti ekki koma og spila með! Svo eru fólk frá öðrum löndum sem mæta og leika með. Þarna voru spilarar frá Finnlandi, Noregi og líka frá Hollandi. Einn slagverksleikarinn kom frá Sinfoníuhljómsveit Íslands.

Jarl Sigurgeirsson sem verið hefur stjórnandi sveitarinnar frá árinu 2007 sagðist afskaplega ánægður með tónleikana. „Þeir tókust framar vonum. Ég er þakklátur fyrir góða aðsókn og auðsýndan stuðning við starfið. Sérstaklega er ég þó ánægður með félaga sveitarinnar, sem létu óveður ekki trufla sig og mættu galvaskir til leiks kl.01 aðfararnótt laugardags, sumir beint úr langri Herjólfsferð og jafnvel búnir að keyra yfir allt Ísland, æfðu til að ganga 05 og skiluðu sínu með sóma á tónleikum kl.16,” sagði Jarl í samtal við Eyjafréttir í dag.

Fyrir þá sem ekki áttu heimangengt á tónleikana var þeim streymt beint á Facebook síðu sveitarinnar og má skoða útsendinguna hér að neðan. (Tónleikarnir hefjast á 20. mínútu útsendingarinnar. ATH hljóðið kemur inn á 25.mín.)

Okkar maður Óskar Pétur var að sjálfsögðu á staðnum og myndaði herlegheitin.

Mest lesið