„Forsagan er sú að það er hringt í mig og ég var spurður að því hvort ég sæi einhverja lausn á að geyma munina sem voru á gamla Náttúrugripasafninu við Heiðarveg, fugla- og steinasafninð. Hvort það gæti verið staður fyrir þá hér í Sagnheimum, en því miður er hér ekkert pláss fyrir svona mikið að munum. Ég var þá beðinn um að athuga með verð á frístandandi munaskápum og kom í ljós að þeir kosta að lágmarki rétt um tólf milljónir,“ segir Hörður Baldvinsson, safnstjóri Sagnheima um forsögu þess að á sunnudaginn verður Náttúrugripasafnið opnað að nýju á sínum gamla stað þar sem það verður vonandi tímabundið.

„Ég kom með þessa tillögu því mér fannst þetta einfaldara, að vera hér á gamla staðnum í staðinn fyrir að rífa upp fuglana og steinana og setja í kassa og koma þeim fyrir einhverstaðar úti í bæ við misjöfn skilyrði. Miklu betra væri að þrífa fuglana og loka búrunum og hafa þá til sýnis undir eftirliti, þar sem þeir eru búnir að vera hvort sem er allt frá 1964. Góð lausn því við erum ekki klár með byggingu undir hvorki steina- né fuglasafnið. Munir af þessu tagi eiga ekki samleið með öðrum munum sem ég er með hérna í Sagnheimum og því þurfa þessir munir að vera aðskildir.

Það þarf reglulega að verja fuglana fyrir óværu, það má ekki vera birta og yfirþrýstingur verður vera í búrum og rétt hitastig. Þannig að í skamman tíma er þetta besta lausnin. Náttúrugripasafnið mun vera opið til að byrja með fyrir almenning á laugardögum milli 13.00 og 16.00 í vetur og að sjálfsögðu ókeypis inn. Það er byrjunin en svona safn er mjög mikilvægt fyrir skólana þannig að þetta er allra hagur úr því að staðan er þessi.“

Upphaflega áttu fugla- og steinasafnið að fylgja fiskasafninu í Sea Life safnið sem hýsir mjaldrana sem fluttir voru frá Kína sl. sumar. „Eftir því sem ég heyrði var ekki áhugi á því og er þetta því besta lausnin. Sjálfur hélt ég að fugla- og steinasafnið ættu að fylgja  fiskasafninu. Um það hefði verið gerður samningur en einhverra hluta vegna er ekki til stafkrókur um það að þeir skuldbindi sig til að taka þessa muni. Hvað átti að gera? Þeir vildu ekki munina, ég kom þeim ekki fyrir hér, óraunhæft að setja þá í kassa, þannig að þetta var bara eina lausnin að mínu viti,“ segir Hörður.

Merk söfn með sögu

Fljótt sáu menn að þetta væri bæði lang ódýrasta og fljótlegasta lausnin. Í hönd fór mikil vinna en Hörður segir það mikið lán að fá hjónin Kristján Egilsson og Ágústa Friðriksdóttir sem hafi unnið ómetanlegt starf í þágu safnsins frá upphafi að verkinu. Ágústa er dóttir Friðriks Jessonar, stofnanda Fiska- og náttúrugripasafnsins sem var opnað 1964. Hafði Friðrik líka stoppað upp flesta fuglana en steinasafnið, sem er eitt merkasta skrautsteinasafn landsins gáfu  hjónin Unnar Pálsdóttir og Sveinn Guðmundsson. Þar er að finna flestar þær steinategundir sem finnast á Íslandi.

Kristján tók við sem safnstjóri af tengdaföður sínum og Ágústa þekkir safnið flestum betur. „Hann bauðst til að þrífa alla fuglana og ganga frá þeim og að sjálfsögðu þáði ég það. Sjálfur hafði ég ekki hugmynd hvernig ætti að ganga um þetta allt saman. Ágústa tók að sér að þrífa steinasafnið og þau eru búin að þessu og eiga heiður skilinn. Allt í sjálfboðaliðsvinnu.“

Djúpið verður til

Þá segir Hörður að næsta spurning hafi verið hvað á að gera við salinn þar sem Fiskasafnið var? „Til að allt yrði löglegt urðum við að setja upp neyðarútgang sem við gerðum og er hann út úr gamla fiskasalnum. Tókum eitt búrið í burtu og settum upp hurð. Næst settum við plötur fyrir búrin þannig að þar voru bara auðir veggir. Þá kom upp hugmynd, að hengja myndir á vegginn sem eru til í hundruðum þúsunda og jafnvel í milljóna tali hjá okkur í Safnhúsinu ef við teljum myndirnar hans Sigurgeirs með. Þær koma alls staðar að og niðurstaðan var að klæða veggina með þessum myndum. Þá rakst ég á mynd sem er saga Bátaábyrgðarfélags Íslands í 150 ár. Á myndinni eru allir bátar sem tryggðir voru hjá félaginu og voru bættir eftir að hafa sokkið.“

Í allt eru þetta 74 bátar sem fórust á árunum 1908 til 1991 og er sýnt á korti hvar þeir fórust. „Ég er með myndir af þeim öllum, hvað margir fórust og hvað margir komust af, hvar þeir sukku og svo framvegis.“

Stolt Eyjamanna

Líka verður þarna myndasýning þar sem saga Náttúrugripasafnsins er rakin, safn sem í 55 ár var eitt af því sem Eyjamenn voru hvað stoltastir af. „Þetta er menningararfur okkar og við stöndum í þakkarskuld við Friðrik Jesson sem kom þessu öllu af stað og stýrði safninu í mörg ár. Ekki má heldur gleyma því að Guðlaugur Gíslason, bæjarstjóri og alþingismaður og sjálfstæðismaður hafði forgöngu um stofnun safnsins á sínum tíma. Hann sá fram í tímann og ennþá hefur ekki verið stofnað fiskasafn á Íslandi sem kemst nærri því sem Fiska- og náttúrugripasafnið okkar var. Guðlaugur kveikti neistann á sínum tíma en því miður voru til aðilar hér í bæ sem vildu slökkva þann neista í stað þess að hlúa að honum. Um þetta allt má lesa í ævisögu Guðlaugs sem er frábær lýsing á þeim pólitíska slag sem var um safnið,“ segir Hörður að endingu.

Safnið verður opnað á morgun, sunnudaginn 17. nóvember kl. 13:00 í Náttúrugripasafni við Heiðarveg. Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs opnar sýninguna og Hörður fjallar um sögu safnsins. Í Djúpinu verður sýningin, fast þeir sóttu sjóinn.

Slökkvistöðin opin í dag til kl. 16:00.