„Ég mun fjalla um Sigríðarslysið svokallaða í febrúar 1928 þegar vélbátinn Sigríði rak að landi við Ofanleitishamar í stórviðri sem þá geisaði og afrek Jóns Vigfússonar í Holti, vélstjóra bátsins er hann kleif Ofanleitishamarinn við afar erfiðar aðstæður, gekk til byggða eftir hjálp til bjargar fjórum skipsfélögum sínum. Þá verður einnig fjallað um mannskaða á sjó við Eyjar á árunum 1920  til 1930,“ segir Ragnar Óskarsson um erindi sem hann flytur í Einarsstofu í Safnahúsi á morgun, laugardag klukkan kl. 13:00

 

„Eitt af þekktustu björgunarafrekum á þessari öld er afrek Jóns Vigfússonar frá Holti í Vestmannaeyjum þegar hann kleif Ofanleitishamar eftir að bátur hans, Sigríður, brotnaði í spón undir þverhníptum hömrum Heimaeyjar. Löngum hefur afrekið verið kennt við Sigríðarslysið, en Ofanleitishamar var talinn ókleifur, enda mjög laust berg og þverhnípi. Afrek Jóns varð honum og fjórum skipsfélögum hans til bjargar. Liðin er nær öld frá því að þessi atburður átti sér stað, en Jón í Holti hefur aldrei fyrr viljað segja frá þessum atburði sjálfur. Ég ræddi við hann á heimili hans í Eyjum,“ segir í Morgunblaðinu um þetta einstaka afrek.