Á fundi bæjarráðs í gær var til umræðu beiðni Alþingis um umsagnir um tillögu til þingsályktunar um þyrlupall í Vestmannaeyjum. Samkvæmt tillögunni er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að gera ráðstafanir til að Isavia geti hannað og staðsett þyrlupall á Heimaey til að auka enn frekar öryggi í sjúkra- og neyðarflugi til Vestmannaeyja og verkinu verði lokið eigi síðar en árið 2021.

Bæjarráð tekur undir með flutningsmönnum tillögunnar og segir í niðurstöðu sinni að mikilvægt sé að “grípa til ráðstafana til að tryggja örugga sjúkraflutninga í neyðartilvikum og stytta viðbragðstímann. Ljóst er að núverandi fyrirkomulag með staðsetningu sjúkraflugs á Akureyri er óásættanlegt.”