Vestmannaeyjahöfn óskar eftir tilboðum í endurbyggingu Skipalyftukants. Stálþilið og þekjan í kring eru fyrir löngu orðin lúin og því brýn þörf á endurbótum. Helstu verkþættir í tilboðinu eru að brjóta 111 m af kantbita, taka upp 15 stálþilsplötur, reka niður 69 stálþilsplötur, setja upp 111 m af stálþilsfestningum, fylla um 2.800 m3 og steypa 111m af kantbita. Fram kemur einnig að verkinu skal lokið eigi síðar en 1. júlí 2020.

Léleg jarðtenging

„Þetta er elsta stálið í höfninni í dag það er frá því 1981. Stálið er til það var keypt í fyrra og því einungis verkið sjálft auglýst,“ sagði Ólafur Snorrason hjá Vestmannaeyjahöfn. Tæp 40 ár eru samt sem áður ekki góð ending en eðlileg ending á bryggjustáli í höfnum á Íslandi er um 50-60 ár. „Við vitum ekki alveg hvað veldur þessu líklegasta ástæðan er léleg jarðtengin sem veldur aukinni tæringu á stálinu,“ sagði Ólafur. Þegar enduruppbyggingunni er lokið stendur til að ráðast í viðgerðir á þekju og lögnum á kantinum.