Nýbygging við Hamarsskóla var til umræðu á fundi fræðsluráðs í gær þar gerði Ólafur Þór Snorrason grein fyrir drögum að hugsanlegri tímalínu verkefnisins.

Skipa faghóp
Í niðurstöð málsins þakkar fræðsluráð framkvæmdastjórum fjölskyldu- og fræðslusviðs og umhverfis- og framkvæmdasviðs fyrir. Ráðið samþykkir drög að tímalínu og leggur áherslu á að bygging verði tilbúin fyrir skólaárið 2022-2023. Ráðið skipar faghóp (þarfagreiningahóp) sem samanstendur af skólastjóra GRV, skólastjóra tónlistaskóla, aðstoðarskólastjóra Víkurinnar, fræðslufulltrúa, forstöðumanni frístundavers, húsverði Hamarsskóla, matráði Hamarsskóla, fulltrúa kennara GRV, fulltrúa tónlistarkennara auk framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar. Fræðsluráð leggur jafnframt til að bæjarstjórn skipi byggingarnefnd á fundi bæjarstjórnar þann 5. desember nk.

Gleðjast yfir metnaði
Fulltrúar sjálfstæðisflokksins bókuðu eftirfarandi við afgreiðsluna. “Það er gleðilegt að sú tillaga sem undirrituð báru upp í upphafi kjörtímabilsins sé nú að verða að veruleika. Undirrituð telja þá tímalínu sem liggur fyrir metnaðarfulla og bera þess merki að fara eigi af fullum krafti í þetta brýna verkefni. Við erum þess sannfærð að með samvinnu allra aðila sem koma að málinu mun þetta mikilvæga verkefni fá farsælan enda og verða til happs fyrir alla bæjarbúa.”