Brunavörðum heimilisins fjölgar

Í vikunni heimsótti Slökkvilið Vestmannaeyja 3. bekk Grunnskólans í Vestmannaeyjum sem og krakkana í Víkinni.  Þar var rætt við þau um eldvarnir, við leikskólabörnin með aðstoð slökkviálfanna Loga og Glóðar. „Eftir gott spjall og stutta teiknimynd fengu svo allir viðurkenningarskjal og möppu með skemmtilegum heimaverkefnum auk þess sem þau ætla að vera með okkur í liði í vetur og passa sérstaklega vel leikskólann sinn með reglulegum skoðunum,“ segir á Fésbókarsíðu Slökkviliðsins.

Í beinu framhaldi var svo farið í árlega Eldvarnaátakið með nemendum í 3.bekk þar sem farið var yfir öll helstu atriði í eldvörnum heimilanna s.s. reykskynjara, slökkvitæki, eldvarnateppi og flóttaleiðir.
Börnin fengu svo heim með sér söguna af Brennu-Vargi ásamt fleiri góðum hlutum auk verkefnis sem þau leysa heima með foreldrum sínum og skila aftur í skólann. Dregið verður svo úr réttum lausnum og verðlaun afhent í febrúar n.k.

Mest lesið