Má móðir fara með son sinn í sund?

Örvar Guðni Arnarson skrifar

Örvar Guðni Arnarson skrifar.

Nú eru fótboltamenn og fótboltakonur að fá ljómandi fína 200 milljóna kr. sturtuklefa undir stúkunni við Hásteinsvöll. Um er að ræða einhverskonar byltingu, en sturtur Týsheimilisins eru ófullnægjandi að mati KSÍ og þá munu hinir nýju klefar stytta umtalsvert vegalengdina fyrir íþróttamennina. Allt er þetta líklegast gott og gilt.

Karlaklefinn í Íþróttamiðstöðinni er í meiriháttar uppfærslu og þar er sæmileg aðstaða fyrir fatlaða einstaklinga sem þurfa sitt athafnarými. En sumir fatlaðir einstaklingar þurfa hjálp og vandamálið birtist þegar sá sem hjálpar (sem er oftast kona) eru ekki af sama kyni og sá sem þarf hjálpina. Þá þarf að leita að klefa, aðra en þá kynskiptu. Þeir geta verið hér og þar í húsinu, t.d. ófullnægjandi dómarasturtuklefar og fylgja þessu iðulega einhverjir ranghalar, blaut fótspor og óþarflega mikið af nekt.

Ég hvet bæjaryfirvöld til að huga að þessu nú þegar meiriháttar framkvæmdir eru hafnar í sturtuklefum Íþróttamiðstöðvarinnar. Það væri ánægjulegt að geta tekið betur á móti þeim fötluðu hópum sem heimsækja eyjarnar og einnig þeim Eyjabörnum sem þurfa þessa hjálp í skólasundi, nú eða einfaldlega ef móðir vill fara með son sinn í sund.