Fjórtán hlutu alls ellefu milljón krónu styrk

Viltu hafa áhrif 2020?

Alls hlutu 14 verkefni styrk frá Vestmannaeyjabæ í verkefninu Viltu hafa áhrif?, samtals fyrir rúmar 11 milljónir.

Fimleikafélagið Rán hlaut stærsta styrkinn í ár eða 3,5 milljónir króna til kaupa á nýrri fíberdýnu. Stofnun rafíþrótta deildar hlaut styrk sem og Vestmannaeyjar á Google kortið.
Þau verkefni sem hlutu styrki í ár eru:

 • Myndavél nærri varpi undir Skiphellum, hægt að fylgjast með í beinni útsendingu: 350.000 kr. – Hörður Baldvinsson fyrir hönd áhugahóps um fuglaskoðun
 • Styrkur vegna heimildarmyndar um Þrettándan: 750.000 kr. – SIGVA media
 • Styrkur vegna heimildarmyndarinnar Eldhuga: 750.000 kr. – Gísli Pálsson og Valdimar Leifsson
 • Styrkur til „Food and Beer Festival 2020“: 250.000 kr. – Kjartan Vídó fyrir hönd The Brothers Brewery
 • Fimleikafélagið Rán – Styrkur vegna kaupa á fíberdýnu: 3.500.000 kr. – Elísa Kristmannsdóttir fyrir hönd Fimleikafélagsins Ránar
 • Viðhald og viðgerðir á veggjum á lóðarmörkum Landakirkju: 1.000.000 kr. – Andrea Atladóttir fyrir hönd Sóknarnefndar Landakirkju
 • Lista og menningarfélag Vestmannaeyja – Opin vinnustofa: 500.000 kr. – Laufey Konný Guðjónsdóttir fyrir hönd Lista og menningarfélags Vestmannaeyja
 • Bók um matargerð og hráefni í náttúru Vestmannaeyja: 750.000 kr. – Gísli Matthías Auðunsson
 • Stofnun rafíþróttadeildar Vestmannaeyja: 500.000 kr.  – Jón Þór Guðjónsson fyrir hönd áhugahóps um stofnun Rafíþróttadeildar
 • Myndataka og kortlagning vegakerfis í Vestmannaeyjum: 500.000 kr. – Davíð Guðmundsson
 • Fólkið í Dalnum – styrkur vegna fjármögnunar og frágangs: 300.000 kr. – Sighvatur Jónsson og Skapti Örn Ólafsson
 • Sögur frá Vestmannaeyjum: 500.000 kr. – Ragnheiður Jónsdóttir
 • Lundi.is – Vefsíða vegna pysjueftirlits: 1.000.000 kr. – Gígja Óskarsdóttir fyrir hönd ÞSV
 • Fjölskyldutónleikar – ÍBV : 500.000 kr. – Daníel Geir Moritz fyrir hönd Knattspyrnuráðs karla ÍBV

Það var Njáll Ragnarsson sem tilkynnti um styrkþegana við viðhöfn í Djúpinu, salnum í Náttúrugripasafninu við Heiðarveg í hádeginu í dag. Þar sem samningar um styrkina voru einnig undirritaðir.

Uppbyggingasjóður 2020

Áður en tilkynnt var um styrkina söng Barnakór Landakirkju nokkur jólalög og Íris Róbertsdóttir hélt ræðu.

Verkefnið Viltu hafa áhrif? hefur verið í gangi í tengslum við undirbúning fjárhagsáætlunar undanfarin ár.  Í ár bárust yfir 40 ábendingar, tillögur og umsóknir um styrki.

Þetta hefur verið gert í nokkur ár með góðum árangri og markmiðið er að stuðla að auknu íbúalýðræði í Vestmannaeyjum með því að gefa fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri á að hafa áhrif á fjárhagsáætlun næsta árs.

Fjölmargar góðar ábendingar hafa borist í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, menningartengda bókaútgáfu, kaup á köldum potti á sundlaugarsvæðinu, leiktæki á opnum svæðum og göngustíga.

„Tillögurnar sem bárust núna eru ekki síður athyglisverðar. Það er gaman og nauðsynlegt fyrir okkur sem falin er stjórn bæjarins að fá hugmyndir um verkefni beint frá bæjarbúum. Það er allra hagur og betur sjá augu en auga,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri.
Ein af þeim ábendingum sem fram komu í ár er t.a.m. vatnspóstur/krani við sprönguna þar sem hægt er að fá sér vatn að drekka og þvo sér um hendurnar að loknu sprangi. „Frábær hugmynd, sem send var af ungum íbúa í Eyjum, sem við höfum þegar komið í farveg,“ sagði Íris.

Myndband frá afhendingunni má sjá í spilaranum hér að ofan sem og myndir hér að neðan.

Mest lesið