Klukkan 14.00 á morgun,  fimmtudaginn 12. desember eru 60 ár frá því fyrsti Herjólfur kom nýr til Vestmannaeyja. Það var mikið framfaraspor í samgögnum Eyjafólks því með tilkomu hans hófust reglulegar siglingar til Vestmannaeyja. Reyndar frá Reykjavík en einu sinni í viku var skutlast í Þorlákshöfn.

Mynd: Sigurgeir Jónasson

Þessa verður minnst í Einarsstofu í Safnahúsi kl. 17.00 á morgun, fimmtudag þegar Sigurgeir Jónasson, frá Skuld og Viktor P. Jónsson verða með ljósmyndasýningu sem þeir hafa tekið saman. Sigurgeir tók myndir þegar svarti Herjólfur eins og hann var oft nefndur kom til hafnar í Eyjum. Einnig frá komu Herjólfs annars og þriðja og fleiri skipum sem þjónuðu Eyjamönnum hér áður. Saman tóku þeir myndir þegar sá nýjasti kom síðasta sumar og verða þær einnig með í sýningunni.

Verður gaman að sjá þróun samgangna á sjó við Vestmannaeyjar og hluta þeirra sem komu að því stóra verkefni.