Lögð fram fundargerð starfshóps um skipulag tjaldsvæða á Þjóðhátíð á fundi í Umhverfis- og skipulagsráð í gær.

Meta Þórsvöll eftir þjóðhátíð
Niðurstaða ráðsins var eftirfarandi: Ráðið er hlynnt því að framtíðar tjaldsvæði fyrir Þjóðhátíð verði á Þórsvelli. Ráðið telur mikilvægt að ekkert verði aðhafst fyrr en eftir að stóru fótboltamótin eru yfirstaðin sumarið 2020. Lagt er til að ástand á Þórsvelli verði metið eftir Þjóðhátíð 2020. Að mati loknu leggur ráðið til, ef þörf er á, að ný staðsetning fyrir fótboltavöll innan skipulags íþóttasvæðis verði vísað til umræðu og skoðunar.

Þessi afgreiðsla var samþykkt með 3 atkvæðum H- og E-lista gegn 2 atkvæðum D-lista.

Ótímabært að ræða nýjan fótboltavöll
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki tekið undir þá fundargerð sem hér liggur fyrir. Við teljum að hagkvæmast sé að tjaldsvæði á þjóðhátíð verði á Áshamarsvæðinu á meðan ekki er byggt þar. Eftir það er sjálfsagt að láta á þann möguleika reyna að tjalda á þjóðhátíð á Þórsvellinum. Um er að ræða tjöldun í um 7 daga á ári, sem þýðir að í annan tíma ársins yrði Þórsvöllur til afnota sem fótboltavöllur eins og áður. Áður en látið verður á þetta reyna, er með öllu ótímabært að ræða kostnaðarsamar hugmyndir eins og nýjan fótboltavöll.”

Starfshópurinn kominn langt út fyrir sitt verksvið
Í bókunin fulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur einnig fram. “Í fundarboði sem ráðsmenn fengu kemur fram að málið “skipulag tjaldsvæða á Þjóðhátíð? sé til umræðu. Í fundargögnum, sem og í bókun meirihluta má sjá að hér er verið að leggja til atriði sem að okkar mati er því alls ótengt. Þessi hópur sem skipaður var um framtíðarstaðsetningu tjaldsvæða á þjóðhátíð er því farinn langt út fyrir sitt verksvið með því að tala um framtíðarstaðsetningu tjaldsvæða í heild sinni og að skoða fjölgun knattspyrnuvalla, en skv. fyrirliggjandi gögnum liggur augljóslega fyrir að bæta þurfi við knattspyrnuvöllum, verði tjaldsvæði á Þórsvelli að veruleika. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að starfshópar á vegum sveitarfélagsins fjalli um það sem þeim er ætlað og haldi sig við það hlutverk sitt. Það er mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa að geta treyst því að mál á dagskrá funda fagnefnda snúist raunverulega um það sem kemur fram í formlegu fundarboði. Slíkt er vönduð stjórnsýsla.”