Desember er mánuður fagnaðarerindis og er sannarlega um slíkt að ræða hjá KFS að þessu sinni! Markakóngurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur tekið við þjálfun liðsins! Gunnar Heiðar er með gríðarlega reynslu af fótbolta og eru bundnar miklar vonir við þessa ráðningu. ÍBV og KFS eru í nánu samstarfi sem forsvarsmenn beggja aðila vilja efla og er ráðningin á Gunnari hluti af því.

„ÍBV hefur verið í sambandi við mig í nokkrar vikur og líst því yfir að vilja fá mig til að þjálfa hjá þeim. Þegar félagið þitt leitar til þín þá er mjög erfitt að segja nei við því. Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni. Ég hlakka til að hjálpa ungum leikmönnum sem eru kannski ekki alveg klárir í meistaraflokk ÍBV og gera þá að betri leikmönnum. Ég hef alla tíð verið hlynntur þessu samstarfi hjá ÍBV og KFS. Þegar ég spilaði erlendis þá sá maður vel hvað svona samstarf getur verið mikilvægt fyrir leikmenn sem hafa metnað og vilja til að bæta sig. Margir frábærir leikmenn sem ég spilaði með komu inn í aðalliðið í gegnum svona samstarf. Þetta er frábært tækifæri fyrir metnaðarfulla leikmenn að spila fullorðinsbolta og eiga möguleikann á að ná lengra,” sagði Gunnar að þessu tilefni.

Markmið KFS er að fara upp um deild næsta sumar og að skapa öllum þeim sem vilja spila fótbolta af metnaði vettvang til þess.

Til hamingju með samninginn Gunnar og áfram KFS!

Af vef ÍBV íþróttafélags