Árlegur grímudansleikur Eyverja fór fram í dag og þar kenndi ýmissa grasa. Góð mæting var hinna ýmsu kynja vera og mikið stuð á svæðinu. Það voru að lokum frænkurnar Bjartey Ósk Sæþórsdóttir og Kolbrún Orradóttir sem báru sigur úr bítum en þær komu dulbúnar sem leigubíll á ballið. Búningurinn var samstarfsverkefni Bjarteyjar og pabba hennar og því kemur engum á óvart að Honda merki prýddi bílinn. Guðbjörg Karlsdóttir hafnaði í 2. Sæt og Sandra Dröfn Frostadóttir í því þriðja.

Sérstök verðlaun fyrir líflega framkomu hlaut Lilja Rut Brynjarsdóttir í gervi Línu Langsokks en Lína sjálf mætti á ballið og skemmti gestum. Einnig voru veitt verðlaun fyrir frumlegasta búninginn en það var ósýnilegur maður sem hlaut þau og eftir mikla leit komumst við að því að Bjartey Dögg Frostadóttir var í þessum skemmtilega búning.