Fjöldi svefnrýma í Herjólfi tvöfaldast í febrúar

Mynd: Guðmundur Alfreðsson

Skortur á svefnrýmum um borð í Herjólfi hefur verið áberandi í umræðunni eftir áramót. Sjóveikir farþegar liggjandi á göngum skipsins hafa því miður verið algeng sjón upp á síðkastið. Í smíðalýsingu skipsins var sett inn viðbót þar sem gert var ráð fyrir því að bæta við 32 færanlegum svefnrýmum og samið við FAST, fyrirtæki í Póllandi sem innréttaði skipið um smíði á þessum kojum. Upphaflega stóð til að þær yrðu teknar í gangið um áramót.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir í samtali við Eyjafréttir að viðbótar kojurnar séu í smíðum og séu væntanlega til landsins í lok janúar og gert ráð fyrir að uppsetning fari fram í byrjun febrúar. Við þetta kemur heildarfjöldi svefnrýma til með að tvöfaldast því fyrir eru í skipinu 30 kojur.

Mest lesið