Tilkynning um lúsina er fastagestur í pósthólfum foreldra allan ársins hring. Eftirfarandi póstur barst í dag foreldrum barna í 1. bekk Grunnskóla Vestmanneyja.

“Sæl veri þið
Lúsin heldur áfram að poppa upp hjá okkur í skólanum og því þurfum við að gera róttækar aðgerðir.
Í dag fóru nemendur heim með blað þar sem þið verðið að kemba börnin og kvitta fyrir að þið hafið kembt barnið. Þessu blaði á að skila á morgun, föstudag 10.janúar.
Ef það eru einhverjir sem skila ekki blaðinu á morgun, þá verður hringt í þá foreldrar og þeir beðnir um að sækja barnið í skólann.”

Eyjafréttir höfðu samband við Óskar Jósúason aðstoðarskólastjóra og spurðu hann út í málið. “Það kemur reglulega upp í árgöngum að börn eru ekki að losna við lúsina. Þá þarf bara að fara í svona samstillt átak foreldra og skóla. Sem betur fer er þetta nú ekki algengt.”

Það er því ljóst að foreldrar barna í 1. bekk GRV þurfa að kemba sín börn ef þau ætla að senda þau í skólann á morgun.