Á fundi bæjarráðs í gær var tekist á um vinnubrögð í tengslum við kaup á raforku hjá sveitarfélaginu. Málið var kynnt á fundinum.

Nýverið ákvað Vestmannaeyjabær að leita eftir verðtilboðum í raforkukaup og fékk tilboð send frá nokkrum söluaðilum. Eftir mat á tilboðum var ákveðið að taka tilboði Orkusölunnar ehf. Samningur Vestmannaeyjabæjar og Orkusölunnar var svo undirritaður þann 3. janúar 2020. Nær samningurinn til tveggja ára. Reiknað er með að sparnaður á raforkukaupum Vestmanneyjabæjar nemi um 12% með tilkomu nýs samnings.

Þann 3. janúar sl., hlutu Vestmannaeyjabær og Vestmannaeyjahöfn viðurkenninguna Græna ljósið frá Orkusölunni, sem vottar til um að sveitarfélagið og höfnin noti 100% endurnýjanlega raforku með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli.

Ólýðræðisleg vinnubrögð
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir að umræddur samningur um orkukaup hafi ekki komið til afgreiðslu í bæjarráði sem fer með fjárheimildir sveitarfélagsins fyrr en að þeim loknum. Hvorki hafi forsendur útboðs á raforkukaupum, til hvaða aðila var leitað til né verðkannanir eða samningur verið lagður til staðfestingar á bæjarráðsfundi, heldur les undirrituð um téð raforkuviðskipti í fjölmiðlum. Slík stjórnsýsla er hvorki gegnsæ né lýðræðisleg. Undirrituð fagnar lækkun á orkukostnaði og er með engum hætti að gagnrýna við hvaða aðila er skipt við eða forsendur samnings, né á nokkurn hátt að draga úr mikilvægi upprunavottunar orkunnar, enda hafði undirrituð engar upplýsingar til að meta slíkt, heldur fyrst og fremst þá stjórnsýslu sem meirihluti bæjarstjórnar viðhafði í umræddu máli.

Fagna samningnum
Mikilvægt er að leita allra leið til að hagræða í rekstri sveitarfélagsins sé þess kostur. Samningurinn við Orkusöluna tryggir lægri fastan rekstrarkostnað vegna raforkukaupa, um allt að 12%, fyrir Vestmannaeyjabæ og Vestmannaeyjahöfn. Fulltrúar E-og H- lista fagna samningum.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar að náð hafi verið fram lækkun á orkukaupum sveitarfélagsins en telur eðllegt að til framtíðar verði samningar sem slíkir bornir undir bæjarráð fyrir samþykkt þeirra.