Bæjarráð fundaði í vikunni en það var meðal annars til umræðu þjónustusamningur milli Vestmannaeyjabæjar og Markaðsstofu Suðurlands um tiltekna þjónustu á sviði markaðs- og ferðamála en samningurinn rann út um síðustu áramót.

Bæjarráð hefur ákveðið að framlengja samstarfssamninginn um eitt ár. Með því mun Markaðsstofan halda áfram að annast markaðsstarf með sérstaka áherslu á fjölgun ferðamanna, aðstoð við stefnumótun og dreifingu kynningarefnis.

Markaðsstofa Suðurlands er sjálfseignarstofnun sem sett var á stofn 19. nóvember 2008. Stofnendur stofunnar eru Ferðamálasamtök Suðurlands, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Rúnturinn um Rangárþing og loks Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu og nær starfssvæði stofunnar frá Lónsheiði í austri að Sandskeiði í vestri auk Vestmannaeyja. Innan þessa starfssvæðis eru 15 sveitarfélög, um 29 þúsund íbúar og 2.400 fyrirtæki af ýmsum toga.