Vestmannaeyjar hafa á síðustu árum verið stærsta löndunarhöfn loðnu, en milli 2016 og 2018 voru 29% aflans landað þar, og kæmi áframhaldandi loðnubrestur því einna harðast niður á sveitarfélaginu að því er segir í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Vísar bankinn í að nú eru horfur á að ekkert verði af loðnuvertíð á þessu ári, annað árið í röð, sem yrði í fyrsta sinn sem það gerist tvö ár í röð síðan veiðar hófust á loðnu 1963.

Í fyrra var jafnframt fyrsta árið sem alls engin loðna veiddist, þó það hafi gerst áður að lítið hafi veist sum árin, eins og 2009 og 1982 þegar aflinn nam 13 til 15 þúsundum tonna meðan flest ár nemi hann nokkrum hundruðum þúsundum tonna og hafi mest farið í 1,3 milljón tonn árið 1997.

Bendir bankinn jafnframt á að bæði Ísfélagið, sem á stærsta hluta loðnukvótans, eða rétt undir 20% hámarkinu, sem og Vinnslustöðin, sem er fjórði stærsti kvótaeigandinn með tæplega 11% eru staðsetti í bænum, en fjögur stærstu fyrirtækin eiga tæplega 65% alls loðnukvótans.

Útflutningsverðmæti loðnu árin 2016 til 2018 nam að meðaltali 18,1 milljarði króna, í samanburði við 96,2 milljörðum tonna á þorski en næstur á eftir loðnu í aflaverðmæti er karfi með 13,5 milljarða króna verðmæti. Miðað við þessi ár gætu fyrirtæki í Eyjum orðið af tekjum upp á 5,8 milljarða króna ef ekkert finnst af loðnu í loðnuleitinni sem nú tendur yfir.

Viðskiptablaðið greindi frá