Frá 2010 til loka árs 2019 er heild­ar­magn dýpk­un­ar­efn­is úr Land­eyja­höfn og inn­sigl­ing­unni að henni rúm­lega 4,1 millj­ón rúm­metr­ar (m³) eða ná­kvæm­lega 4.148.764 rúm­metr­ar. Þetta er al­veg geysi­legt magn af sandi og marg­falt meira en áætlað var þegar höfn­in var hönnuð.

Í mats­skýrslu fyr­ir Land­eyja­höfn (Bakka­fjöru­höfn, 2008) og tengd­ar fram­kvæmd­ir var heild­ar­magn viðhalds­dýpk­un­ar áætlað um 30 þúsund m³ á ári og eft­ir af­taka­veður var reiknað með að gæti þurft að fjar­lægja um 80 þúsund rúm­metra. Reynd­in var sú að marg­falt meira hef­ur þurft að losa úr höfn­inni. Til dæm­is var 317.700 rúm­metr­um af sandi dælt upp árið 2019 og árið 2020 er áætlað að dæla upp 300.000-500.000 m³, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Vega­gerðinni.

For­send­ur áætl­un­ar á um­fangi viðhalds­dýpk­un­ar hafa ekki staðist. Fyr­ir því eru nokkr­ar ástæður og veg­ur þar þyngst gosið í Eyja­fjalla­jökli vorið 2010. Í kjöl­far þess stór­jókst framb­urður frá jökl­in­um sem veld­ur meiri efn­is­b­urði í inn­sigl­ingu Land­eyja­hafn­ar en reiknað var með.

Stækka þarf svæði los­un­ar
Eins og fram kom í frétt í Morg­un­blaðinu sl. þriðju­dag hef­ur Vega­gerðin birt til kynn­ing­ar frummats­skýrslu VSÓ Ráðgjaf­ar um ný efn­is­los­un­ar­svæði fyr­ir utan Land­eyja­höfn.

Til þessa hef­ur efnið verið losað á af­mörkuðu svæði. En nú er talið nauðsyn­legt að stækka það svæði vegna þess hve um­fangs­mik­il efn­is­los­un­in hef­ur reynst. Eft­ir stækk­un verður svæðið um 240 hekt­ar­ar að stærð og get­ur tek­ur við um 10 millj­ón rúm­metr­um af efni. Þessi svæði, sem eru í um 3,0 kíló­metra fjar­lægð frá Land­eyja­höfn, eru tal­in duga til næstu 20-30 ára.

Niðurstaða frummats­skýrsl­unn­ar var sú að los­un á efni úr höfn­inni á nýj­um svæðum í sjó er tal­in hafa óveru­leg nei­kvæð áhrif á líf­ríki sjáv­ar og fjöru.

Rann­sókn­ir á korna­dreif­ingu á dýpk­un­ar­efni úr Land­eyja­höfn hafa sýnt að dýpk­un­ar­efnið er að lang­mest­um hluta fínn og meðal­gróf­ur sand­ur, þ.e. með korna­stæð und­ir 1 milli­metra, seg­ir m.a. skýrsl­unni. Straum­hraði sjáv­ar­falla er yfir 0,15 m/​s í 61% af tím­an­um og öldu­hæð er yfir 2 metr­ar í um 35% af tím­an­um. Því eru korn að stærð 1 mm á hreyf­ingu að minnsta kosti 20% af tím­an­um og hreyf­ing á minni korn­um er enn tíðari. Haf­straum­ar eru með ríkj­andi stefnu til vest­urs við suður­strönd Íslands og ríkj­andi öldu­stefna á svæðinu er suðvest­an.

Efnið færst til norðvest­urs
Dýpt­ar­mæl­ing á nú­ver­andi og fyr­ir­huguðum los­un­ar­svæðum við Land­eyja­höfn hafa sýnt að efnið sem losað hef­ur verið er al­mennt að fær­ast til norðvest­urs. Einnig hafa þær sýnt að haug­arn­ir sem voru á svæðinu 2017 hafa minnkað og færst um 50 metra til vest­urs. Það sé því ljóst að efni á öllu los­un­ar­svæðinu sé á mik­illi hreyf­ingu. Eft­ir því sem sand­ur­inn berst nær landi mun hann fara aft­ur inn í sand­b­urðarbú­skap suður­strand­ar­inn­ar. Þar munu straum­ar og öld­ur færa sand­inn til og móta strönd­ina þannig að hún haldi sinni nátt­úru­legu mynd. Með því að stækka los­un­ar­svæðið og dreifa efn­inu yfir stærra svæði verði hægt að koma í veg fyr­ir að haug­ar mynd­ist. Botn­sýni, sem tek­in voru á svæðinu, hafa sýnt að við þess­ar aðstæður þrífst nær ekk­ert líf við botn­inn.

Í frummats­skýrsl­unni er einnig gert ráð fyr­ir að hafa heim­ild fyr­ir því að losa efni á rifi sem er utan hafn­argarðsins. Þess­ir los­un­arstaðir hafa ekki verið notaðir und­an­far­in ár, en talið mik­il­vægt að eiga mögu­leika á því ef nauðsyn kref­ur.

Sandrif­in mynd­ast á ný
Sam­kvæmt ára­tuga dýpt­ar­mæl­ing­um ligg­ur sandrif fram­an við suður­strönd­ina í um 800-1.000 metra fjar­lægð. Óvenju­legt veðurfar og öldufar árin 2010 og 2011 breytti strönd­inni fram­an við höfn­ina þannig að sandrifið minnkaði og hvarf að hluta. Vet­ur­inn 2012 færðist öldufarið í sitt vana­lega ástand og sandrifið byrjaði að mynd­ast aft­ur. Los­un við sandrif­in er ætlað að styrkja og flýta fyr­ir mynd­un á sandrif­inu ef öldufar er þannig að það hverfi eða minnki veru­lega. Ekki er bú­ist við reglu­legri los­un á þess­um svæðum. Þegar sandrifið er utan við höfn­ina brotn­ar ald­an á rif­inu og við það lækk­ar hún og miss­ir orku. Hafn­ar­mann­virk­in verða því fyr­ir minni áraun og sand­flutn­ing­ar minnka. Sam­kvæmt rann­sókn­um er sand­b­urður inn í höfn­ina minni þegar sandrifið er full­myndað.

Grein­in birt­ist fyrst í Morg­un­blaðinu 16. janú­ar.