Síðastliðin 19 ár hefur lögreglan í Vestmannaeyjum keyrt um á Ford Econoline. Sá bíll er 24 ára gamall og er ekinn 150.000 km. Hann hefur nú lokið sínum ferli sem lögreglubíll og hefur verið afhentur Lögregluminjasafninu til varðveislu. Enn eru tveir eða þrír sambærilegir bílar eftir í notkun hjá lögreglunni í landinu.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri segir að lögreglubíllinn gamli hafi þjónað sínu hlutverki í gegnum tíðina og reynst lögreglunni vel í hinum ýmsu verkefnum. Hins vegar sé nú á leiðinni nýr lögreglubíll til Eyja af gerðinni Mercedes Benz Vito. Bíllinn verður vitaskuld merktur lögreglunni og útbúinn öllu því helsta sem lögreglan þarf á að halda í sínum störfum, hvort sem um er að ræða minni eða stærri verkefni. Að sögn Páleyjar er bíllinn væntanlegur innan skamms tíma.