Framkvæmdir hafa staðið yfir við Ægisgötu og tafið umferð við götuna. Um er að ræða breytingar á yfirfallslögn. “Við erum að setja yfirfall á Kirkjuvegslögnina og vonumst með því til að létta á miðbæjarkerfinu. Ofankoman undanfarna mánuði hefur verið meiri en við höfum séð í mörg ár og verðum við að reyna að bregðast við eins og hægt er,” sagði Ólafur Snorrason framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar. Ólafur segir að búast megi við því að ráðist verði í frekari framkvæmdir á þessu sviði á næstunni. “Við erum sífellt að endurskoða fráveitukerfið og meta hvar þarf að bæta og breyta. Einnig er víða komið að endurnýjun en sumstaðar eru lagnir mjög gamlar.”