Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru samningsaðilar Vestmannaeyjabæjar og hafa umboð til að berjast fyrir hönd sveitafélagsins um bættan þjónustusamning við ríkið en Hraunbúir fellur undir þennan samning.

Jón Pétursson

“Yfirlýsing samningsnefndar SFV segir allt um stöðu mála í samskiptum við ríkið og lýsa vel stöðu reksturs Hraunbúða. Það er með ólíkindum hvernig framkoma ríkisins er í þessu hvort sem menn benda á heilbrigðisráðuneytið, fjármálaráðuneytið eða Sjúkratryggingar Íslands. Ríkið ber ábyrgð á þessum rekstri, setur upp kröfulýsingu um hvernig hún á að fara fram en ætlast til að aðrir greiði fyrir þjónustuna,” sagði Jón Pétursson framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs hjá Vestmannaeyjabæ.

Yfirlýsing frá samninganefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna gerðar þjónustusamninga milli Sjúkratrygginga Íslands og ríflega fjörutíu hjúkrunarheimila landsins.

Í lok árs 2019 var gengið frá þjónustusamningum milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og ríflega fjörutíu hjúkrunarheimila landsins sem gilda til ársloka 2021. Sú samningagerð byggði á viðræðum milli SÍ annars vegar og sameiginlegrar samninganefndar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (Samband ísl. sv.) hins vegar. Sú ákvörðun að gera þessa samninga var samninganefnd  SFV og Sambands ísl. sv. erfið og var í raun umdeild innan hjúkrunarheimilanna af ýmsum ástæðum.

Meginástæðan er að sá samningur sem hjúkrunarheimilin hafa nú gert er mikil afturför frá fyrri samningi sem gilti árin 2016 til 2018. Í þessum nýja samningi er ekki gert ráð fyrir að bætt verði við fjármunum til að mæta aukinni þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem munu þurfa að nýta sér þjónustu í hjúkrunar – og dvalarrýmum á samningstímanum. Í því felst að ef íbúar eins hjúkrunarheimilis þurfa aukna þjónustu vegna heilsufarsástæðna, þá mun fjármagn vegna þjónustu við íbúana ekki verða aukið í réttu hlutfalli við þörfina. Greiðslur vegna þjónustu við íbúa sem hafa sömu þjónustuþörf og áður, munu lækka. Þetta gallaða kerfi var notað af hálfu ríkisins við útdeilingu fjármuna áður en gerður var þjónustusamningur við hjúkrunarheimilin árið 2016. Nýr samningur felur í sér afturhvarf til þess kerfis og gengur gegn því sjónarmiði að greiðslur fylgi þjónustuþegum og í samræmi við þeirra þörf.

Samninganefnd SFV og Sambands ísl. sv. er engan veginn sátt við þessa niðurstöðu. Meginástæða þess að sú ákvörðun var tekin að skrifa undir samning nú var sú afstaða ríkisins að um 216 milljónir króna af fjárveitingu sem ákvörðuð var með fjárlögum fyrir árið 2019 til reksturs hjúkrunarheimila, yrði ekki greidd nema gerður yrði samningur. Þá væri óljóst með einingarverðshækkanir og aðrar greiðslur á árinu 2020, ef ekki yrði samið og SÍ myndu setja heimilunum gjaldskrá. Samningsstaða hjúkrunarheimila var því engin. Aðstöðumunur samningsaðila við samningsborðið er mikill og aflsmunar beitt. SFV hafa, ásamt öðrum þjónustuveitendum í heilbrigðisþjónustu, gagnrýnt mjög þessa útfærslu ríkisins við fjármögnun heilbrigðisþjónustu. Margir og alvarlegir vankantar eru á því ferli, eins og fram kemur í skýrslu KPMG frá nóvember 2019.

Þá vilja samninganefnd SFV og Sambands ísl. sv. ítreka að styrkja þarf rekstrargrunn hjúkrunarheimila. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þvert á móti er í nýjum samningi hjúkrunarheimilanna fjárveiting til heimila vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar takmörkuð umfram það sem áður gilti og skerðingar auknar frá því sem áður var til hjúkrunarheimila sem eru með óbreytta hjúkrunarþyngd. Þriðja árið í röð lækka greiðslur (að raunvirði) til þeirra hjúkrunarheimila sem eru með íbúa með óbreyttri hjúkrunarþyngd. Á meðan aðrar heilbrigðisstofnanir hafa fengið aukið rekstrarfé undanfarin ár í fjárlögum er rekstrarfé hjúkrunarheimila skorið niður.

Hjúkrunarheimilin eru hluti af heilbrigðiskerfinu og staða þeirra og starfsemi hefur áhrif á kerfið í heild sinni. Hvergi í heilbrigðisstefnu stjórnvalda eða í samningum SÍ hefur verið ákvarðað nákvæmlega umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veita á inni á hjúkrunarheimilum. Hvergi er tekið fram um hversu langt heimilin eiga að ganga í því að sinna flókinni hjúkrun og læknisþjónustu. Hjúkrunarþyngd íbúa heimilanna hefur aukist umtalsvert undanfarin ár eins og rannsóknir sýna og hafa heimilin gengið langt umfram skyldu í viðleitni við að sinna sínum íbúum innan veggja heimilanna. Fagmönnun á hjúkrunarheimilum er mun minni en viðmið Embættis landlæknis kveða á um eins og hjúkrunarheimilin hafa bent þingmönnum og stjórnvöldum á í áraraðir. Með hliðsjón af minnkandi fjárveitingu og fagmönnun er ljóst að á næstu misserum munu sum heimilanna neyðast til að senda íbúa í auknum mæli á spítala, enda mörg heimili ekki lengur í stakk búinn til að sinna veikustu íbúum með öruggum hætti.

Þrátt fyrir undirritun ofangreindra þjónustusamninga munu SFV og Samband ísl. sveitarfélaga því halda áfram að beita sér fyrir því að íbúar í hjúkrunar – og dvalarrýmum geti fengið þá þjónustu sem þeir hafa þörf fyrir og hjúkrunarheimili fái það fjármagn sem þarf til að veita þeim þá þjónustu líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Ef óskað er eftir frekari upplýsingum er hægt að hafa samband við Pétur Magnússon, stjórnarformann SFV (s: 841-1600) eða Eybjörgu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra SFV (s: 898-9225).

 

Samninganefnd SFV og Sambands íslenskra sveitarfélaga skipa:

F.h. SFV: Björn Bjarki Þorsteinsson, varaformaður SFV, Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SFV, Pétur Magnússon, formaður SFV, og Sigurður Rúnar Sigurjónsson, stjórnarmaður SFV.

F.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga: Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag – og upplýsingasviði