Byggðapottarnir svonefndu, 5,3 prósent allra aflaheimilda, hafa verið umdeildir og margt er óljóst um gagnsemi þeirra. Starfshópur um heildarendurskoðun mun vera langt kominn með vinnu sína.

Samtök sunnlennskra sveitarfélaga (SASS) segja „gríðarlega mikilvægt að farið verði í ýtarlega greiningu á árangri á 5,3% veiðiheimildunum, svo hægt sé að átta sig á núverandi stöðu, hverju veiðiheimildirnar hafa skilað og að hægt verði að gera breytingartillögur byggðar á núverandi stöðu og fyrri árangri.“

Þetta kemur fram í erindi sem samtökin sendu til starfshóps sem nú vinnur að því að endurskoða byggðapottana svonefndu sem stjórnvöld úthluta til að styðja við byggðaþróun og atvinnuþróun í landinu.

Í erindinu kemur fram ótti um að í vinnu starfshópsins sé ekki farið nógu ýtarlega í greiningu á 5,3% pottunum og jafnframt er lýst vonbrigðum með að samráð við hagsmunaaðila hafi ekki orðið annað en að bjóða til kynningarfundar og afhenda skrifleg gögn.

Í starfshópnum sitja þau Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, en hann er formaður hópsins, alþingismennirnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þorsteinn Víglundsson, ásamt Bergþóru Benediktsdóttur, aðstoðarmanni forsætisráðherra, og Gunnari Atla Gunnarssyni, aðstoðarmanni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Styttist í niðurstöðu

Óðum styttist í að starfshópur þessi skili af sér. Upphaflega var gert ráð fyrir að hann myndi skila niðurstöðum sínum 1. nóvember síðastliðinn, en það hefur dregist. Að sögn Þórodds Bjarnasonar, formanns starfshópsins, er nú verið að leggja lokahönd á vinnuna. Útkoman ætti að líta dagsins ljós á allra næstu vikum.

Ein umdeildasta og kannski erfiðasta spurningin varðandi byggðapottana snýst um það hverjir „eiga“ þessar veiðiheimildir, og þá um leið hverjir eiga kvótann í heild. Er forræðið á hendi ríkisins sem getur þá úthlutað til byggðaverkefna samkvæmt lögum? Eða eru það útgerðir landsins, þær sem hafa fengið úthlutað hinum 94,7 prósentum veiðiheimildanna, sem eiga tilkall til 5,3 prósentanna líka?

Í erindinu frá SASS segir að viðhorf forsvarsmanna sveitarfélaga á Suðurlandi skiptist í tvo hópa út frá afstöðunni til „eignarhalds“ veiðiheimildanna.

Annars vegar séu þeir sem líta svo á að 5,3 prósentin séu skerðing á veiðiheimildum þeirra útgerðarfélaga sem hafa á sínu forræði hin 94,7 prósentin. Hins vegar séu þeir sem líta svo á að þessi 5,3 prósent séu í einhverjum skilningi eign ríkisins og nýta eigi þessar veiðiheimildir á forsendum byggðaaðgerða.

Beinharðir hagsmunir

Viðhorf sveitarfélaganna mótast ekki síst af því hve mikið af veiðiheimildunum rennur út úr sveitarfélaginu vegna byggðaaðgerðanna, og svo hversu mikið renna til sveitarfélagsins í gegnum 5,3% veiðiheimildirnar.

Dæmi er tekið af Vestmannaeyjum, en lögaðilar þar hafa á sinni hendi býsna stóran hluta af veiðiheimildum hvers árs: „Til Vestmannaeyja eru hins vegar að fara mjög lítill hluti þeirra veiðiheimilda sem ráðstafað af 5,3% veiðiheimildunum. Sú staðreynd markar mjög viðhorf aðila í Vestmannaeyjum til 5,3% veiðiheimildanna. Á það bæði við um viðhorf sveitarfélagsins sem og útgerðaraðila í Eyjum.“

Landssamband smábátaeigenda (LS) sagðist strax í ágúst, í umfjöllun á vef sínum, ætla að leggja áherslu á það í málflutningi sínum „að tryggja sem mestar veiðiheimildir til dagróðrabáta gegnum línuívilnun og byggðakvóta. Línuívilnun verði hækkuð í 30% og verði fyrir alla dagróðrabáta. Úthlutun byggðakvóta verði að mestu í ívilnun á landaðan afla þar sem dagróðrabátar verði í forgangi.“

Flókinn bútasaumur

Byggðapottarnir eru nokkuð flókinn bútasaumur úr reglugerðum og lagaákvæðum sem enginn hægðarleikur er að einfalda. Nánar tiltekið eru þetta sex pottar sem hver um sig gegnir tilteknu hlutverki: Almennur og sértækur byggðakvóti, strandveiðar og línuívilnun, skel- og rækjubætur og loks frístundaveiðar.

„Útflutningsverðmæti íslensks sjávarútvegs á árinu 2018 var 247 makr. Gera má ráð fyrir að 5,3% útflutningsverðmætanna sé því nærri 13 makr,“ segir í erindinu frá SASS. „Þetta eru gríðarleg verðmæti og er sú upphæð lýsandi fyrir umfangið.“

Í erindisbréfi frá ráðherra segir að starfshópnum sé meðal annars falið „að líta til þess hvort þeim markmiðum sem að var stefnt með þessum aflaheimildum hafi verið náð og eftir atvikum leggja til breytingar.“ Enn fremur segir að vega þurfi og meta „fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, þ.m.t. strandveiða, með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.“fiskifrettir.is greindi frá