Olísdeild karla í handbolta fer aftur af stað í kvöld klukkan 18:30, þegar ÍBV tekur á móti Val. Valsmenn voru á mikilli siglingu í deildinni fram að hléi og hafa á að skipa sterku liði og því ljóst að verkefnið er krefjandi. Við heyrðum í Kristni Guðmundssyni og spurðum hann út í ástandið á hópnum og hvernig framhaldið horfir við honum.

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi átökum hjá okkur. Það er rosalegt prógramm fram undan Valur, Selfoss, FH, Afturelding og Haukar á innan við 20 dögum. Deildin er mjög jöfn og þetta eru 7-8 lið sem eiga bullandi möguleika á því að vinna þetta mót.“

 

Ánægður með ástandið á hópnum

Varðandi ástandið á hópnum var Kristinn nokkuð ánægður. „Við höfum æft vel og erum að fá menn til baka úr meiðslum. Grétar Þór er kominn á fullt og það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fá hans kraft og hugarfar aftur á æfingar og inn í hópinn. Robbi Sig er búinn að ná sér af þeim meiðslum sem hann varð fyrir í lok árs. Bæði Teddi og Sigurbergur eru farnir að æfa með okkur. Varðandi Sigurberg þá erum við bara að auka álagið á fótinn smátt og smátt og þetta bara tekur tíma en við erum bjartsýnir á að fá hann til baka. Það er erfiðara að segja með Theodór hann er misgóður og mikill dagamunur á honum þannig að það verður bara að koma í ljós hvernig honum tekst að jafna sig á sínum meiðslum.“

Það var ekki annað hægt en að spyrja Kristinn út í Kára Kristján en mikið mæddi á línumanninum á nýafstöðnu Evrópumóti í handknattleik. „Kári komst vel frá mótinu miðað við álag, svona mót tekur sinn toll og meira álag á Kára en við áttum von á fyrir mótið. Við erum með Elliða í toppstandi hann hefur verið að leysa þær mínútur vel sem hann hefur fengið í vetur. Ég hef engar áhyggjur af því ef Kári er eitthvað þreyttur.“

„Við höfum verið að vinna í því að bæta okkar leik og Nú þurfum við bara að halda því áfram, þá er bara skemmtilegur vetur fram undan,“ sagði Kristinn Guðmundsson að lokum.