Nátthrafnar í Vestmannaeyjum urðu varir við nokkuð háværar drunur í nótt rétt fyrir klukkan þrjú. Um var að ræða þrumur frá tveimur eldingum sem mynduðust suð-vestan við Vestmannaeyjar sú fyrri klukkan 2:49 og síðari 2:56 samkvæmt veðurstofu Íslands.

Viðmælandi sem hafði samband við Eyjfréttir þótti þetta óþægileg upplifun í ljósi nýlegra frétta frá Reykjanesskaganum. Margir tengja eldingar við eldgos eins og Eyjamenn þekkja frá Surtsey og Eyjafjallajökli. En þegar eldgos verður undir jökli, sjó eða vatni verða meiri eldingar en ella. Eldingar í slíkum gosum verða vegna rafhleðslu í gosmekkinum.

Á vísindavef Háskóla Íslands eru þrumur og eldingar útskýrðar á eftirfarandi hátt. “Elding er þráðlaga ljósblossi frá rafstraumi sem hleypur milli staða í skýjum eða milli skýja og yfirborðs jarðar. Rafstraumurinn sem myndar eldinguna hitar loftið í næsta nágrenni svo snöggt að úr verður sprenging og hljóðbylgja sem við köllum þrumu berst í allar áttir.”