Það var mikið fjör á árshátíð Eyjamanna í Hörpu um liðna helgi eins og einn tónleikagestur kallaði Eyjatónleikana sem haldnir voru í níunda skiptið í Eldborgarsal í þetta skiptið undir yfirskriftinni „Í brekkunni“.  Maður fann það um leið og maður steig inn í Hörpu að ekki var um hefðbundna uppákomu að ræða í húsinu. Á hverju horni var heilsað bæði góðkunningjum og eins kunnuglegum andlitum sem maður var kannski ekki alveg 100% á því hver var en þótti vissara að heilsa. Eins og fyrri ár var salurinn þétt setinn og mikil eftirvænting fyrir skemmtuninni.

Tónleikarnir sjálfir voru afbragðs skemmtun enda valinn maður í hverju rúmi. Það sem stóð upp úr fyrir undirrituðum var flutningur Bergþórs Pálssonar á laginu Ungi vinur eftir Oddgeir Kristjánsson við texta Ása Í Bæ, Bergþór skilaði laginu afar vel frá sér og snart marga í salnum. Bergþór flutti líka Glóðir eftir Oddgeir við texta Lofts Guðmundssonar og gerði vel. Matthías Matthíasson var einnig frábær þar stóð upp úr flutningur hans á rokkskotinni útgáfu á Nú meikar þú það Gústi eftir Bjartmar Guðlaugsson.

Það var mjög sérstakur andi yfir hléi tónleikanna það er fáheyrt að 40 mínútna hlé sé tæplega nógu langt. Marga þurfti að hitta og margt að ræða og rifja upp. Ég er nokkuð viss um að sumir mæti þarna ár eftir ár meira fyrir þennan tímabundna félagsskap en það sem gengur á í salnum.

Takk fyrir mig Bjarni Ólafur og Guðrún Mary. Takk fyrir frábæra skemmtun og takk fyrir að halda þessum fallega menningararfi okkar á lofti með þessum hætti. Það eru vissulega margir landshlutar sem hafa gefið af sér stóran hóp af tónlistarfólki og eiga ríka tónlistarmenningu en ég sé ekki fyrir mér að nokkur annar þjóðflokkur fylli stærsta tónleikasal landsins níu ár í röð til að hlusta á lögin sín.

Sindri Ólafsson

Hér að neðan má svo sjá á annað hundrað myndir Óskars Péturs frá tónleikunum.