Skipverjar á Brynjólfi VE komu færandi hendi með töskukrabba (Cancer pagurus) til Sea life trust eftir hádegi í dag. Krabbann fengu þeir í troll suður af Vestmannaeyjum. Töskukrabbi er rauðbrúnn á lit með hringlaga skjöld og klærnar eru með svarta enda. Krabbinn getur orðið 25 cm í þvermál og vegið allt að 3 kíló. Töskukrabbi er eftirsótt matvara víða í Evrópu en hann er veiddur sunnar í álfunni.

Audrey Padgett forstöðukona safnsins segir það skemmtilegt að fá sendingar sem þessar en biður sjófarendur og aðra sem veiða áhugaverð dýr að hafa samband við safnið, eins og gert var í þessu tilfelli. „Það er mikilvægt að við höfum aðstöðu og pláss til að taka á móti sendingum sem þessum áður en þær koma til okkar,“ sagði Audrey.

Krabbanum var komið fyrir í einangrun eins og reglur safnsins gera ráð fyrir en reiknað er með að hann verði til sýnis innan fárra vikna.