Bæjarstjóri kynnti á fundir bæjarráðs í gær greininguna Loðnubrestur 2019 / Staða, áhrif og afleiðingar fyrir Vestmannaeyjar. Vestmannaeyjabær og hagaðilar héldu íbúafund 26. mars eftir að ljóst var að loðnubrestur yrði vertíðina 2019. Á fundinum kom fram að miklvægt er að hafa í hendi raunveruleg gögn og greiningar um samfélagsleg áhrif loðnubrestsins á Vestmannaeyjar. Til þess að átta sig á umfanginu og að hægt sé að bregðast við og kalla eftir aðgerðum ef að það yrði aftur loðnubrestur. Bæjarstjórn ákvað í framhaldinu á fundi sínum í 28. mars að láta vinna greininguna. Hrafn Sævaldsson var fengin til þess.
Helstu niðurstöður eru þær að loðnubrestur hefur bein áhrif á 350 starfsmenn og er ígildi 60 ársverka. Tapaðar launatekjur í Vestmannaeyjum eru a.m.k. 1000 milljónir.
Tekjutap útgerðarfyrirtækja er um 7.600 milljónir. Tekjutap annar fyrirtækja er um 900 milljónir og Vestmannaeyjabær og Vestmannaeyjahöfn verða af um 160 m.kr.
Bæjarstjóri kynnti í gær, í samráði við formann bæjarráðs, greininguna fyrir sjávarútvegsráðherra.

Bæjarráð þakkar bæjarstjóra kynninguna. Ljóst er að áhrif loðnubrestsins 2019 hér í Eyjum eru mjög mikil á samfélagið allt ekki bara þá sem starfa í sjávarútvegi. Fyrirtæki og fólk í Eyjum hafa tekið þetta mikla högg vegna ársins 2019 en annar loðnubrestur er eitthvað sem yrði Vestmannaeyjum mjög erfitt. Rúmlega 30% allra veiðiheimilda í loðnu eru hjá fyrirtækjum í Eyjum. Afleiðingar af því er ekki bara mikið tekjutap samfélagsins alls heldur eru miklar líkur á að markaðir tapist verði loðnubrestur annað árið í röð. Loðnubrestur hefði ekki aðeins áhrif á Vestmannaeyjar og þau sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi heldur þjóðarbúið í heild. Það er lykilatriði að stjórnvöld beiti sér fyrir auknum rannsóknum á loðnu. Einnig vöktun og leit að loðnu næstu vikur til þess að hægt sé að mæla það magn af loðnu sem er við Ísland og vonandi gefa út kvóta í framhaldinu.

Verði ekki gefin út loðnukvóti annað árið í röð mun bæjarráð óska eftir fundi með sjávarútvegsráðherra, sveitarstjónaráðherra og fjármálaráðherra til að ræða mögulegar mótvægisaðgerðir við aflabresti.