Lögreglan í Vestmannaeyjum bendir að afar slæm veðurspá er fyrir landið og hefur veðurstofan sett á appelsínugula viðvörun fyrir landið allt. Veðrið verður verst á spásvæði Suðurlands og þar eru Vestmannaeyjar undir. Spáð er austanátt, allt að 37 m/sek og mun meira í hviðum. Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir á öllu landinu. Almannavarnir eru í viðbragðsstöðu.

Bæjarbúar, eigendur fyrirtækja og allir sem staddir eru í Vestmannaeyjum eru beðnir um að taka þessa veðurspá alvarlega, tryggja lausamuni utandyra eins og kostur er og fara yfir húseignir sínar með tilliti til þess hvað getur farið af stað í óveðrinu. Þá er því beint til fólks að vera ekki ferðinni á meðan versta veðrið gengur yfir. Samkvæmt veðurspánni á versta veðrið að standa yfir frá kl. 05 á föstudagsmorgni og fram yfir hádegi. Reynsla okkar hefur þó kennt okkur að við fáum veðrið oft aðeins á undan því sem spáin segir.