Veðurofsinn í Vestmannaeyjum virðist nú vera að nálgast hámark. Það kemur fram á facebook síðu Lögreglunnar að Viðbragðsaðilum hafi borist 18 útköll. Fyrstu útköllin fóru að berast upp úr eitt í nótt, þau hafa verið víða að úr bænum. Meðalvindhraði á Stórhöfða klukkan 7:00 var 44 m/s og fóru hviður upp í 56 m/s.

Haft er eftir Páleyju Borgþórsdóttur á visir.is. „Þessi átt fer svo sem betur með okkur en áttin sem við vorum með í desember. Þá var norðvestan en við austanáttin fer betur með okkur. Við erum með 43 m/s í stöðugum vindi og 57 m/s í hviðum,“ segir Páley.

Hún segir miklu muna á spám og raunverulega veðrinu. Þar muni jafnvel níu til tíu metrum á spánni og því sem raungerist. „Það munar miklu og við höfum séð það áður.“