Nú þegar íbúar á sunnanverðu landinu eru farnir að treysta sér út eftir föstudagslægðina er rétt að fara að fjalla um næstu lægð sem dýpkar nú ört og nálgast landið hratt úr suðvestri. Samkvæmt spám staðnæmist lægðin svo suður af landinu. Vindur verður minni á landinu heldur verið hefur í dag. Þó verður hvasst (yfir 20 m/s) á suðausturlandi samfara úrkomu.

Veðurhæðin er þó ekki það sem þykir fréttnæmt, heldur er það dýpt lægðarinnar. GFS reiknilíkanið sem Blika byggir á reiknar 915 hPa þrýsting í lægðarmiðjunni, sem er með því lægsta sem sést.

Metabækurnar segja að tvær lægðir keppi um þann vafasama heiður að vera dýpstu lægðir sögunnar á heimsvísu. Báðar þessar lægðir náðu sinni mestu dýpt í grennd við Ísland. Um er að ræða 912 – 915 hPa lægð sem náði mestu dýpt suðaustur af Íslandi þann 10. janúar 1993 og svo 916 hPa (af sumum talin 912 – 913 hPa) sem dólaði á hafinu milli Íslands og Grænlands 15. desember árið 1986. Þrátt fyrir mikla dýpt ollu þessar lægðir ekki teljandi vandræðum, allavega á Íslandi, enda var lægðamiðjan fjarri landi.

Fyrir veðuráhugamenn verður spennandi að fylgjast með ferð og dýpt lægðarinnar og sjá hvort nýtt “lægðaheimsmet” verði sett. Það verður þó að teljast fremur ólíklegt að dýpt lægðarinnar verði minni en 913 hPa, en langt í frá útilokað. Það er þó nokkuð víst að lægðin verðu sú dýpta á þessari öld.

Þrátt fyrir að við óttumst lægðina ekki mjög, kemur hún til með að valda vandræðum víða í Evrópu. Gular eða appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út í Austurríki, Sviss, Spáni, Frakklandi, Írlandi, Íslandi, Noregi, Portúgal, Svíþjóð, Litháen, Slóveníu og Bretlandi. Alls 12 lönd þar sem lægðin veldur vandræðum. Ansi víðáttumikil lægð það.

blika.is greindi frá