Ummæli sem Guðjón Guðmundsson íþróttafréttamaður hjá Stöð 2 lét falla í beinni útsendingu á mánudagskvöld hafa vakið athygli víða. Guðjón lýsti leik Selfoss og Aftureldingar í beinni útsendingu á Stöð 2 sport í Olís deild karla ásamt Guðlaugi Arnarsyni. Í umræðu um svokallað „Júggabragð“ lætur Guðjón eftirfarandi orð falla:

„Eyjamenn eru klókir í þessu þeir gera þetta mikið, takið eftir.“

Guðlaugur tók undir þessi orð Guðjóns og hvetur áhorfendur til að fylgjast með því í framhaldinu.

Stórhættulegt heilsu andstæðingsins

Júggabragðið lýsir sér þannig að varnarmaður í horni grípur í fót hornamanns sem hefur stokkið inn úr horninu með þeim afleiðingum að sóknarmaðurinn missir jafnvægið í loftinu. Aðgerðin getur haft alvarlegar afleiðingar detti hornamaðurinn illa. Oft þarf ekki mikla snertingu til og því ekki alltaf augljóst þegar brotið er framið.

Aganefnd HSÍ dæmdi leikmann í tveggja leikja bann árið 2009 eftir að hafa beitt bragðinu umdeilda þá segir í niðurstöðu dómsins “Um er að ræða bragð sem er stórhættulegt heilsu andstæðingsins. Því lítur aganefnd svo á að ekki sé aðeins um leikbrot að ræða heldur einnig grófa óíþróttamannslega framkomu,”

Gögnin tali sínu máli

Guðjón sagði í samtali við Eyjafréttir að ummælin hafi vissulega verið sögð í hita leiksins en brot á leikmanni í loftinu hafi verið of áberandi í deildinni hér heima undanfarin ár. Aðspurður um hvort hann gæti nefnt einhver atvik eða leikmenn ÍBV í þessu samhengi sagðist hann ekki vilja gera það. Guðjón sagðist enn fremur hafa aðgang að öllum leikjum í deildinni síðustu ár og gögnin tali sínu máli.

Fagmennskan engin

Kristinn Guðmundsson annar þjálfara ÍBV var ómyrkur í máli þegar við ræddum við hann. “Ég vil fyrst og fremst lýsa yfir vonbrigðum og hneykslun með þau ummæli sem Guðjón lét falla í leik Selfoss og Aftureldingar. Að halda því fram að leikmenn ÍBV taki kerfisbundið þátt í að framkalla eitt alvarlegasta brot handboltasögunnar, og það reglulega, eru stórar ásakanir! Ásakanir sem ég bíð eftir að Guðjón sanni með myndböndum, sem hann hlýtur að hafa afar gott aðgengi að.”

Kristinn segir þjálfara ÍBV klippa alla leiki liðsins og fullyrðir að leikmenn stundi það ekki að brjóta á andstæðingum sínum á þennan hátt. “Þessi ummæli dæma sig að mínu mati sjálf. Fagmennskan á bak við þau eru að mínu mati lítil sem engin.”

Kristinn segir nokkrum spurningum ósvarað og vill fá svör við þeim.

Liggur eitthvað meira að baki þessarar fullyrðingar?
Er það skoðun stöð2 sport að ÍBV liðið eigi þessa umfjöllun skilið?

Höfum farið fram á viðbrögð frá HSÍ

“Við erum alls ekki sáttir við að slík orð séu látin falla um okkur í ÍBV. Þetta kastar rýrð á okkar vinnu, vegur að starfsheiðri þjálfara og persónum leikmanna. Við höfum farið fram á viðbrögð af hálfu HSÍ og mér þætti eðlilegt að Guðjón bæðist afsökunar á þessum ummælum á sama vettvangi og þau voru látin falla,” sagði Kristinn að lokum.

Íþróttafréttamaðurinn og Eyjamaðurinn Hörður Snævar Jónsson vakti athygli á málinu á Twitter síðu sinni þar sem sjá má myndband þar sem áður nefnd ummæli koma fram.