Nú er nýtt starfsár hafið hjá Hollvinasamtökunum og af því tilefni viljum við minna aðeins á okkur, um leið og við þökkum fyrirtækjum og einstaklingum fyrir frábæran stuðning á síðasta ári. Allur sá stuðningur fer í að bæta upplifun og líðan heimilisfólks á Hraunbúðum.

Til að upplýsa ykkur um fyrirliggjandi verkefni á þessu ári viljum við segja frá því að Hollvinasamtökin standa nú fyrir því að bæta gæði sjónvarpsmóttöku inná herbergjum heimilsfólks í samvinnu við Geisla og munu þá sjónvarpsútsendingar á herbergjum vera í stafrænum gæðum. Gæðin á móttöku sjónvarpsefnis hafa verið frekar lítil og þar sem þetta er stór partur af afþreyingu heimilisfólks var ákveðið að ráðast í þessa framkvæmd. Þau í Geisla ætla að gefa vinnuna við uppsetningu nýja kerfisins og fyrir það erum við innilega þakklát.

Einnig erum við þessa daganna að leita til fyrirtækja í Eyjum með styrk við kaup á nuddstól sem okkur hefur verið bent á að gæti bætt líðan heimilsfólks. Vöntun hefur verið á handlóðum fyrir þjálfunarherbergi og ætla samtökin einnig að gefa þau.

Við förum reglulega í bíltúra og erum alltaf að reyna að fá fleiri sjálfboðaliða til að taka þátt í því verkefni með okkur svo við getum farið oftar, þetta gleður okkar fólk svo mikið.  Hollvinasamtökin hafa einnig boðið heimilisfólki uppá stóla yoga einu sinni í viku síðastliðið ár og hefur það verið vel sótt

Framundan hjá okkur er svo auðvitað árlegt páskabingó ásamt Vorhátíð svo það er nóg framundan.

Að lokum langar okkur svo að minna á reikning Hollvinasamtakanna, sem er 582-26-200200- 4203170770 en allir geta orðið Hollvinir og nægir að setja kennitölu einstaklings eða fyrirtækis í skýringu. Eins er hægt að senda okkur skilaboð hér á Facebook.

Það er jú þannig að mikið hefur vantað upp á að rekstur Hraunbúða geti eingöngu gengið á framlagi ríkisins og hefur Vestmannaeyjabær greitt tugi milljóna á hverju ári til þess að endar nái saman.

Hvatinn að stofnun Hollvinasamtaka Hraunbúða spratt einmitt upp úr þeirri þörf sem hafði myndast vegna þessa. Vonandi sjáum við í framtíðinni að skilningur stjórnvalda verði meiri í þessum málaflokki.

Með kærum þökkum enn og aftur fyrir ykkar stuðning

Stjórn Hollvinasamtaka Hraunbúða