Við Ísland hafa merkingar verið notaðar til að rannsaka far fiska í meira en eina öld en árið 1904 var fyrsti þorskurinn merktur við Ísland. Síðan þá hefur þorskur verið merktur reglulega en með nokkrum hléum. Hafrannsóknastofnun merkti þorska árið 2010 og eftir 9 ára hlé hófust merkingar aftur í mars 2019 þegar 1800 þorskar voru merktir á Vestfjarðarmiðum og við Kolbeinsey. Merkingunum var haldið áfram í október 2019 en þá voru ríflega 900 þorskar merktir í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Með þessum merkingum er meðal annars verið að athuga hvort einhverjir þorskar endurheimtist utan íslenskrar lögsögu en einnig er verið að skoða far ungfisks af uppeldissvæðum. Niðurstöður merkinga gefa mikilvægar upplýsingar um far fiska, það er að segja hvert þeir fara og hvenær. Áætlað er að halda merkingum á þorski áfram í ár.

Við Ísland hafa merkingar verið notaðar til að rannsaka far fiska í meira en eina öld en árið 1904 var fyrsti þorskurinn merktur við Ísland. Síðan þá hefur þorskur verið merktur reglulega en með nokkrum hléum. Hafrannsóknastofnun merkti þorska árið 2010 og eftir 9 ára hlé hófust merkingar aftur í mars 2019 þegar 1800 þorskar voru merktir á Vestfjarðarmiðum og við Kolbeinsey. Merkingunum var haldið áfram í október 2019 en þá voru ríflega 900 þorskar merktir í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Með þessum merkingum er meðal annars verið að athuga hvort einhverjir þorskar endurheimtist utan íslenskrar lögsögu en einnig er verið að skoða far ungfisks af uppeldissvæðum. Niðurstöður merkinga gefa mikilvægar upplýsingar um far fiska, það er að segja hvert þeir fara og hvenær. Áætlað er að halda merkingum á þorski áfram í ár.
Endurheimtur úr merkingum árið 2019. Bláir punktar eru endurheimtur á hrygningartíma (mars-maí) en rauðir á fæðutíma (júní-febrúar). Svartir punktar eru merkingarstaðir.

Fimmtíu og einn þorskur hafa veiðst aftur úr merkingunum árið 2019. Flestar endurheimtur eru úr merkingum á Vestfjarðarmiðum. Fljótlega eftir merkingu í mars og fram á vor endurheimtust þorskar á Vestfjarðarmiðum, í Breiðafirði og við Reykjanes. Þeir sem endurheimtust í Breiðafirði og við Reykjanes gengu þangað til hrygningar. Sex þorskar úr merkingunum á Kolbeinseyjarhrygg hafa endurheimst, þar af einn á handfæri á hrygningartíma innst í Skagafirði. Hinir fimm endurheimtust á Kolbeinseyjarhrygg eða við Kolbeinsey á fæðutíma. Einn þorskur sem var merktur í Skagafjarðardjúpi endurheimtist við Kolbeinsey. Tveir þorskar sem merktir voru í Arnarfirði hafa endurheimts en þeir veiddust í Arnarfirði fljótlega eftir að þeir voru merktir.

Þorskur getur farið langar vegalengdir milli hrygningar-, uppeldis- og fæðusvæða. Tilgangurinn með slíkum langferðum er að vera á svæðum sem eru hvað hagstæðust með tilliti til hvar einstaklingurinn er staddur í lífsferlinum. Endurheimtur úr merkingum við Ísland hafa sýnt að kynþroska þorskur er heimakær að því leyti að hann fer gjarnan á sömu hrygningarslóð að vori til að hrygna. Heimasvæði hrygningarhópanna er lítið yfir hrygningartímann en stækkar eftir hrygningu þegar þeir fara í fæðuleit en á fæðuslóð blandast saman þorskar frá mismunandi hrygningarsvæðum. Að hrygningu lokinni fer þorskur í fæðuleit en mislangt er frá hrygningarsvæðum að fæðusvæðum. Þorskur sem hrygnir við Suðvesturland fer ýmist í fæðuleit út af Vesturlandi og Norðvesturlandi eða í austurátt meðfram suðurströndinni. Hins vegar fer þorskur sem hrygnir við Suðausturland frekar í austurátt í fæðuleit. Þannig er þorskur sem hrygnir við Suðausturland nær alfarið aðskilinn hrygningarþorski í Breiðafirði sem fer nær ekkert suður fyrir Reykjanes. Ennfremur sýndu merkingar að þorskar sem hélt sig norður af Vestfjörðum yfir fæðutímann var aðskilinn þorski sem hélt sig norðaustur af landinu. Þetta er byggt á samantekt á niðurstöðum merkinga í gegnum tíðina.

Fiskmerki í þorski
Allir fiskarnir í þessum merkingum eru tvímerktir, þ.e. einu merki er komið fyrir sitthvoru megin við bakuggann en það er gert til þess að auka líkurnar á að merki finnist ef fiskur endurheimtist og meta tíðni merkjataps.

Það kom því á óvart að sjá hve margir þorskar sem merktir voru í mars 2019 á Vestfjarðarmiðum endurheimtust við Kolbeinsey og einnig hve langt austur þeir leituðu. Þetta stangast á við fyrri rannsóknir sem bentu til þess að takmarkaður samgangur væri á milli norðvestur og norðausturmiða. Fréttir frá sjómönnum herma að erfiðlega hafi gengið að veiða þorsk á hefðbundnum slóðum á Vestfjarðarmiðum í sumar og haust. Merkingarnar í fyrra benda til að þorskur hafi fært sig af hefðbundinni fæðuslóð fyrir norðvestan land yfir á norðari slóðir. Þessar frumniðurstöður gætu bent til að far þorsks við Ísland sé að breytast, hvort sem það er tímabundið eða ekki er erfitt að segja til um. Þær sýna jafnframt að mikilvægt er að stunda merkingar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum þorsksins.

Fiskifræðingar geta aðeins unnið úr merkingagögnum ef fiskar endurheimtast. Sjómenn hafa, ásamt starfsfólki í fiskvinnslum, verið öflugir liðsmenn í merkingarverkefnum á undanförnum áratugum og er þátttaka þeirra ómetanleg. Allir fiskarnir í þessum merkingum eru tvímerktir, þ.e. einu merki er komið fyrir sitthvoru megin við bakuggann en það er gert til þess að auka líkurnar á að merki finnist ef fiskur endurheimtist og meta tíðni merkjataps. Þegar sjómenn eða fiskvinnslufólk finna merktan fisk eru þau beðin um að senda merkin (eða eitt merki ef hitt hefur tapast) til Hafrannsóknastofnunar. Hægt er að senda allan fiskinn eða fjarlægja merkin úr honum og senda þau. Ávallt þurfa að fylgja upplýsingar um staðsetningu veiðistaðar, dagsetningu, dýpi og tegund veiðarfæris. Einnig er mikilvægt að stofnunin fái aðrar upplýsingar, svo sem lengd fisksins, kyn, kynþroska og að kvarnir séu fjarlægðar og sendar með merkinu. Ekki má heldur gleyma að senda með upplýsingar um þann aðila sem sendir merkið. Greiddar eru 2000 krónur fyrir hvert hefðbundið slöngumerki sem er skilað til Hafrannsóknastofnunar.