Fundu töluvert magn af loðnu fyrir austan land

Uppsjávarveiðiskipin Börkur og Polar Amaroq sigldu fram á umtalsvert magn af loðnu fyrir austan land á leið sinni til kolmunnaveiða. „Þetta voru flottar lóðningar hérna vestur af Papey,“ sagði Hálfdán Hálfdánsson skipstjóri á Berki NK í samtali við Eyjafréttir. Skipin gerðu Hafrannskóknarstofnun strax viðvart. „Þetta var allt gert eftir þeirra stjórn, við sigldum eftir ákveðnum punktum og sendum þeim svo öll gögn,“ sagði Hálfdán. Uppsjávarveiðiskipið Hákon sigldi svo norður eftir austurströndinni á móts við skipin. „Ég geri mér enga grein fyrir því hvort þetta er nóg magn til að gefa tilefni til einhverrar bjartsýni. Svo vitum við ekkert hvort þetta er eitthvað sem er búið að mæla áður. Við erum bara farnir á kolmunna og erum bara klárir að snúa við ef það verður gefinn út einhver kvóti,“ sagði Hálfdán að lokum.

Mest lesið