Kvalarfullur dauðdagi fyrir fuglana

segir Margrét Lilja Magnúsdóttir hjá Sealife Trust :: Mikið af olíublautum fugli við Eyjar

Ófögur sjón blasti við vegfarendum um Skipasand um í síðustu viku. Þar mátti sjá mikið magn af olíublautum fuglum sem höfðu skriðið þar á land eftir að hafa orðið fyrir mengun í eða við Vestmannaeyjahöfn.
Óskar Elías Sigurðsson uppstoppari og fuglaáhugamaður sagðist í samtali við Eyjafréttir hafa talið sex mismunandi tegundir í það minnsta sem hafi verið illa leiknar og erfitt að segja um hversu marga fugla hafi verið að ræða. Tegundirnar sem Óskar greindi eru a.m.k. Dílaskarfur, Toppskarfur, Álka, Langvía, Æðarfugl og Súla. Óskar sagði ástandið slæmt og verulega þörf á úrbótum.

Margrét Lilja Magnúsdóttir hjá Sealife Trust segir að óvenju mikið hafi borist af menguðum fuglum inn á safnið í vetur. „Sérstaklega hafa verið áberandi fuglar sem hafa borist úr Klauf eða Höfðavík. Olían á þeim fuglum svört og þykk og fuglarnir illa farnir. Það hafa einnig sést nokkrar dauðar olíublautar langvíur í Klaufinni og er greinilegt að þær eru að synda í gegnum olíuflekk á leiðinni til Eyja. Mjög líklega eru tugir fugla sem hafa lent í olíunni en ekki náð til lands.“

Mikið hefur verið að gera hjá starfsmönnum Sea Life Trust síðustu vikunar við hreinsun á olíublautum fuglum.
Olíuflekkur í höfninni. Þessi mynd var tekin ofan af Heimakletti í síðustu viku.

„Okkur hafa líka borist mikið af fuglum úr höfninni, en ég hef ekki tölu á því hvað við erum búin að þrífa mikið af fuglum á síðustu mánuðum en ástandið er slæmt. Það er ljóst að fyrir hvern fugl sem skríður á land er ansi líklegt að 5-10 fuglar geri það ekki. Þetta er kvalafullur dauðdagi fyrir fuglana. Olían brennir þá að utan sem innan og flestir þeirra drukkna þegar olían hefur brennt burtu fitulagið sem heldur fuglunum vatnsþéttum,“ segir Margrét Lilja.

Engin olía sjáanleg
„Það er engin sjáanleg olía í höfninni núna, við höfum verið að litast um eftir því,“ sagði Andrés Sigurðsson yfirhafnsögumaður hjá Vestmannaeyjahöfn í samtali við Eyjafréttir í síðustu viku. Andrés sagði atvik sem þessi erfið við að eiga. „Það verða alltaf einhver smá óhöpp og menn eru mis samviskusamir að tilkynna það til okkar.“ Andrés bindur miklar vonir við að nýtt og fullkomnara myndavélakerfi geri starfsmönnum hafnarinnar auðveldara fyrir að fylgjast með betur með atvikum líkt og þessum.