Vestmannaeyjabær auglýsti á dögunum stöðu mannauðsstjóra Vestmannaeyjabæjar lausa til umsóknar. Alls sóttu átta einstaklingar um starfið, fimm konur og þrír karlar.

Við mat á umsóknum var fyrst og fremst horft til menntunar- og hæfniskrafna sem fram komu í auglýsingunni, en jafnframt metnir aðrir þættir sem nýst gætu í starfi mannauðsstjóra, svo sem sérstök reynsla eða þekking. Að loknu mati á öllum umsóknum var ákveðið að boða í starfsviðtöl þá fjóra einstaklinga sem metnir voru hæfastir úr hópi umsækjenda, þar sem lagðar voru fyrir staðlaðar spurningar og fyrirfram ákveðnir umræðupunktar. Að loknum viðtölum var leitað eftir umsögnum frá nokkrum yfirmönnum og samstarfsmönnum umræddra umækjenda. Einn umsækjandi dróg umsókn sína til baka.

Að loknu endanlegu mati á öllum framangreindum þáttum ákvað Vestmannaeyjabær að ráða Eydísi Ósk Sigurðardóttur til að gegna stöðunni. Eydís Ósk úskrifaðist með B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifraust árið 2017. Jafnframt lauk Eydís Ósk árið 2003, diplómanámi í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu frá Háskóla Íslands í samstarfi við Nordiska Halsovardshögskolen. Eydís Ósk hefur að mestu starfað á heilbrigðisstofnunum frá útskrift hjúkrunarfræðinnar 1994 og stóran hluta af því tímabili sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, síðar HSU. Sem stjórnandi fjölda starfsmanna til margra ára hefur Eydís Ósk öðlast mikla stjórnunarreynslu þar sem krafist er skipulagningar, samskiptahæfni og þekkingar á réttindum, skyldum og kjarasamningum opinberra starfsmanna, sem og þekkingar á opinberri stjórnsýslu. Hún hefur jafnframt víðtæka reynslu af mannauðsmálum og stefnumótun, verkefnastjórnun, starfsumhverfi opinberra starfsmanna, ferla- og þjónustustjórnun, gerð starfsmannastefnu, starfsmannasamtölum og gæðamálum. Það er mat Vestmannaeyjabæjar að þekking og reynsla Eydísar Óskar falli vel að þeim verkefnum og hæfnisþáttum sem tilgreindir voru í starfsauglýsingunni.

Eydís Ósk er 49 ára að aldri. Hún ólst upp í Hafnarfirðinum, en flutti til Vestmannaeyja um síðustu aldamót og hefur búið hér síðan. Eydís Ósk er gift Sigursveini Þórðarsyni, svæðisstjóra Eimskips í Vestmannaeyjum og saman eiga þau þrjú börn.

Vestmannaeyjabær býður Eydísi Ósk velkomna til starfa.