Vestmannaeyjaferjan Herjólfur sendi rétt í þessu frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið að fjarlægja sængur, teppi og kodda úr gistirýmum ferjunnar. Þetta er gert með það í huga að minnka smithættu farþega og starfsfólks. Þetta mun taka í gildi frá og með 8. mars 2020. Farþegar eru jafnframt beðnir um að koma með sinn eigin búnað.

Þetta er gert í ljósi hraðrar útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þau viðmið sem sóttvarnalæknir og embætti almannavarna setja til varnar.

Einnig kemur fram að almennar sóttvarnir á borð við handhreinsun með handþvotti og/eða handspritti eru mikilvægasta ráðið við sjúkdómnum. Farþegar eru hvattir að notast við handspritt sem er staðsett bæði í afgreiðsluhúsum og um borð í Herjólfi.