Ef ekki nást samningar í kjaraviðræðum BSRB, þar sem Starsmannafélag Vestmannaeyjabæjar (Stavey) er meðal aðildarfélaga, um helgina hefst verkfall á miðnætti á sunnudag. Stendur það í tvo sólahringa, mánudaginn 9. mars og þriðjudaginn 10. mars.

Ein af þeim stofnunum sem yfirvofandi verkfall nær til er Grunnskóli Vestmannaeyja. Í tilkynningu til foreldra, sem send var út í gær, segir Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri, verkfallið hafa töluverð áhrif á skólastarfið. „Skrifstofur skólans verða lokaðar og símsvörun verður takmörkuð. Matráðar skólans fara í verkfall og af þeim sökum verður ekki hafragrautur í boði þessa tvo daga. Engir íþróttatímar verða í íþróttahúsinu þessa daga og þurfa nemendur því ekki að mæta með íþróttaföt, íþróttatímarnir verða í skólanum. Verkfallið mun hafa áhrif á nemendur sem eru með stuðning þar sem stuðningsfulltrúar munu fara í verkfall,“ segir í tilkynningunni.
Mestu áhrifa gætir í gæslu og hádegismat hjá yngstu nemendum skólans. „Stuðningsfulltrúar sinna hádegisgæslu og útivöktum eftir hádegismat. Vegna þessa mun skóla hjá 1. bekk og 2. bekk ljúka fyrir hádegismat þessa tvo daga, kl. 11:40 hjá 1. bekk og kl. 11:20 hjá 2. bekk.
Ástæðan er að ekki er hægt að skammta nemendum hádegismat, engin gæsla yrði í hádegishléi og skólinn mun ekki geta tryggt öryggi nemenda í frímínútum eftir mat.“

Unnur Sigmarsdóttir, formaður Stavey, sagði í samtali við Eyjafréttir stórum áfanga hafa náðst með samkomulagi um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks og unnið væri hörðum höndum að ná kjarasamningum.