Boðað hefur verið til 1556. fundar í bæjarstjórn Vestmannaeyja, var það gert í gær á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar en fundur inn fer fram á morgun 19. mars 2020 og hefst hann kl. 18:00. Athygli vakti að í fundarboðinu er þess getið að fundurinn verður haldinn í gegnum fjarfundabúnað.

Elís Jónsson forseti bæjarstjórnar segir að allir bæjarfulltrúar hafa samþykkt að halda fjarfund og mætti þar af leiðandi búast við öðruvísi fundi. “Algjör samheldni og góð samvinna er á milli bæjarfulltrúa á þessum skrítnu og krefjandi tímum. Hjá Vestmannaeyjabæ er bannað að funda á hefðbundinn hátt.”

Elís segir að rætt hafi veið að fresta fundi við þessar aðstæður en svo ákveðið að fara þessa leið. Um lögmæti fundarins sagði Elís að seinnipartinn í gær var lagabreyting á sveitarstjórnarlögum samþykkt með 46 atkvæðum. Þar kemur fram að ráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að sveitarstjórn sé heimilt að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum um framkvæmd funda.